Tenglar

miðvikudagur 14. nóvember 2018 | Sveinn Ragnarsson

Skógrækt, já takk!

Fyrir stuttu var skógræktarfélagið Björk vakið úr dvala. Í nýrri stjórn sitja meðal annarra María Maack og Halldóra Játvarðardóttir. Okkur langar mikið til að blása lífi í félagið og fá fleiri með í að gróðursetja og sjá um jólatré og skoða hvernig best verður komið upp skjóli og meiri rækt í mannlíf og trjágróður. Til upprifjunar um fyrri grósku má nefna að um aldamótin var heilmikil starfsemi í gangi, ýmist á vegum skógræktarfélagsins eða einstaklinga.


Á þessari öld hafa verið gróðursett skjólbelti og tilraunareitur með aspir var settur á laggirnar í túni vestur af Maríutröð í landi Tómasar Sigurgeirssonar. Einnig fékkst styrkur til að girða spildu austan við þorpið og er þar land til að rækta skjólbelti sem myndi hlífa þorpinu gegn NA átt. Sumarið 2018 plantaði vinnuskólinn á nokkrum blettum innan þéttbýlisins. Skógræktarfélagið kom þar ekki nærri. Þar sem aspir og víðir í tilraunareitnum eru nú 10 ára gamlar má sjá hvernig mismunandi klónum hefur reitt af. Í fyrra bað ég Tuma um leyfi til að sækja stiklinga af þeim sem hafa komið best út og setja niður víðar við Reykhóla.  Lóa hefur mikla trú á klóninum ,,Keisara“ því hann hefur staðið sig vel á Vesturlandi.


Erindi Brynjólfs Jónssonar


Á fundinn um daginn kom Brynjólfur Jónsson sem ættaður er úr Dýrafirði en er nú framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands (SkÍ). Hann sagði frá helstu verkefnum Skógræktarfélags Íslands og nefndi að nokkur svæðisfélög á Vestfjörðum væru öflug til dæmis á Patreksfirði, Bíldudal og Tálknafirði, Ísafirði og í Steingrímsfirði. Væri vert að kanna samtakamátt allra þessara félaga til að vinna meira markvisst á öllum Vestfjörðum.


Brynjólfur sagði tækifæri liggja í nýrri stefnu ríkisstjórnar í loftslagsmálum þar sem aukið fé væri að koma til skógræktar miðað við undanfarin ár. Eftir fall bankanna hefði verið skorið mikið niður og bændur sem voru komnir af stað innan eyrnamerktra verkefna  á vegum Skógræktarinnar (áður Skógræktar ríkisins) hefðu ekki fengið afhentar plöntur í samræmi við óskir. Gróðurstöðvum var lokað á nokkrum stöðum og er auðsætt að hætta er á skorti á plöntum nema þarna sem bætt úr af myndarskap.


Óskandi væri að nú kæmi meira fé til kolefnisbindingar. Nokkrar mismunandi áætlanir eru í gangi. YRKJU er sérstaklega ætlað að veita skólum árlega tækifæri til að gróðursetja, til dæmis einum aldurshópi. Skynsamlegt er að taka ekki of mikið fyrir í einu (2-3 tré á hvert barn) til að drepa ekki áhugann með of langri vinnu.  KOLVIÐUR er annar sjóður sem útvegar plöntur til gróðursetningar til að binda kolefni. LANDGRÆÐSLUSKÓGAR er enn ein áætlunin. Skógræktin og SkI vinna saman með áhugafélögum en bændur græða landið er stærsta áætlunin, Skógarbændur fá námskeið, leiðbeiningar og  plöntur til að gróðursetja í eigin landi. Mælt er frekar með að gróðursett sé í jaðra túna, t.d. í fjallshlíðar frekar en unnin tún.  SkI veitir fræðslu og getur aðstoðað með skipulag og ráðgjöf miðað við aðstæður og skaffað vinnuhópa t.d. við grisjun.


Vinnuhópar á vegum SkÍ leggja stíga í þeim skógum sem ákveðið er að opna, gera uppdrátt og undirbúa leiðbeiningar. Innviðir til skiltagerðar fást hjá SkÍ. Þá eru sett upp kort og leiðarvísar um svæðið og fólki boðið að njóta útivistar, oft með fræðslu. Á Vestfjörðum vantar opna skóga og væri heillaráð að koma Barmahlíðarskóginum inn í þá biðröð að sögn Brynjólfs þó svo að sitthvað hafi verið grisjað á undanförnum árum. Hæsta tré Vestfjarða ætti að draga að. Þá koma sjálfboðaliðar í gegnum ERASMUS styrk, sköffuð er möl og viður í tröppur og stíga. Hópurinn fær verkefni sem skilgreind eru í samráði við skógræktarfélag svæðis, auk þess aðgang að gistingu og eldhúsi sér að kostnaðarlausu. 


Skógræktarfélög hafa á undanförnum árum verið að færast frá því að gróðursetja í fjarlægum reitum og í það að setja niður skjólbelti nær byggð og inni í þéttbýli. Stærst er svæðið í kringum þéttbýli höfuðborgarsvæðisins (græni trefillinn). Er það orðið myndarlegt skóglendi sem borgarbúar nota mikið til útivistar. Þetta virkar sem skjól, jarðvegsbinding og heilsueflandi svæði. Þar eru notaðar fjölbreyttar tegundir, útivistin verður eftirsóttari þar sem mynduð eru skógarrjóður og fjölbreytni gleður augað. Yfirleitt er hægt að sækja um 6 tegundir í blöndu bæði barrtré og lauftré. Í Reykhólasveit ætti að vera hægur vandi að safna birkifræi í Barmahlíðarskógi á haustin og sá þeim strax.


Skógrplöntur eru pantaðar í janúar fyrir næsta sumar. Ekki er ráðlegt að taka of mikið í einu, einungis svo mikið sem gefur félagsmönnum ánægju við gróðursetningu. Svo það fer eftir fjölda í félagatali hve mikið ætti að panta hingað. Ef gróðursett er í graslendi þarf að setja ofan í plastdregla sem kæfa grasið og velja stærri plöntur. Annars vilja þær kafna og mygla í grasi. Ef gróðursett er í mólendi mega plöntur vera minni. Plantað er í maí-júní eða sept-nóvember eftir árferði.


Kom fram að Þörungaverksmiðjan er tilbúin til að setja úrgangsmjöl til skógræktar en safnhaugar (molta) verða að vera aðgengilegir í rýru landi, einnig fyrir sjálfboðahópa. Áburður þarf að vera köfnunarefnisríkur (blákorn).


Mikilvægt er að samningur um land fyrir skógtækt liggi fyrir og fylgi umsókn þannig að ljóst sé að plönturnar fái samastað innan svæðis skógræktarfélagsins. Nú vil ég gjarna heyra í ykkur sveitungar hvort ekki eru fleiri sem hafa áhuga á að vera með. Dæmigerð dagskrá ársins er ein heimsókn í skóglendi, einn dagur í plöntun, samskipti við sjálfboðaliða og grisjun. Við viljum að sjálfsögðu fá börnin með.

 

  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31