Tenglar

fimmtudagur 3. maí 2018 | Sveinn Ragnarsson

Verum virk

Um daginn var haldinn íbúafundur í Reykhólasveit. Þar voru rædd ýmis málefni sem falla undir nefndir sveitarfélagsins. Einnig tillögur að nýjum framkvæmdum og hugmyndir handa nýrri sveitarstjórn til þess að fegra mannlífið. Frétt þar um birtist fyrir skemmstu á vefnum okkar.


Íbúakannanir geta líka gefið innsýn í hugarheim fólks og álit þess á heimabyggð og væntingar til framtíðarinnar. Í vetur hafði háskólinn á Akureyri samband við íbúa allra sveitarfélaga á Vestfjörðum og bauð þeim að taka þátt í íbúakönnun á vegum Sambands Sveitarfélaga á Vesturlandi/Vestfjörðum. Niðurstöðurnar voru reifaðar á Fjórðungsþingi en skýrslan er ekki komin út.

 

Þar kemur þó fram að þeir íbúar Stranda- og Reykhólahrepps sem svöruðu könnuninni voru ekki nægilega margir til þess að mark sé takandi á þeirra skoðunum. Þetta er afar bagalegt því að þar með er ekki hægt að bera saman hug fólks í mismunandi sveitarfélögum til sveitarfélagsins og rýna á ástæður óánægju eða ánægju. Erum við sátt við þjónustu stofnana í nærumhverfi eða hvar við viljum sjá framfarir á næstunni. Það eru vísbendingar í Reykhólasveit um að fólk sé almennt ánægt með heilsugæslu og náttúruna en síður ánægt með húsnæðismál og framhaldsskólaþjónustu.


Þar sem ég er ætíð upptekin af boðun sjálfbærrar þróunar vil ég af þessu tilefni rifja upp að öflug þátttaka í lýðræði og jafnræði þegnanna, gott tillit til barna og ungs fólks, virðing gagnvart elstu kynslóðinni og traust milli þeirra sem hafa breiðustu bökin til stjórnkerfisins er ein af þremur undirstöðum hennar. En þá er líka búist við að hver og einn þekki bæði frelsi sitt og ábyrgð og leggi sitt af mörkum til að skapa gott samfélag. Það búa ekki allir við lýðræði, skoðanafrelsi eða óháða fjölmiðlun, þannig að gagnrýni ætti að fylgja nokkur ábyrgð.


Ég velti fyrir mér hvers vegna þátttakan á okkar svæði var miklu minni en annars staðar á Vestfjörðum. Getur verið að fólk veigri sér við að nota tölvur og vefþjónustu, nenni ekki að sinna svoleiðis stússi? Hefðu þeir hinir sömu gefið sér tíma fyrir 30 mín símtal? Að nota tölvur er miklu ódýrara í framkvæmd, tekur styttri tíma og það er hægt að svara tölvu-könnun þegar hentar.  Þá fæst líka stærra úrtak á styttri tíma og niðurstöðurnar verða nær því sem má teljast rétt. Þátttaka í að svara könnunum er nefnilega mikilvæg. Niðurstöður eru nothæfar. 


Tölvutengingar á svæðinu hafa nú ekki verið afleitar, þótt nú horfi til enn betri vegar. Lýðræðið hefur breyst eftir að samfélagsmiðlar komu í stað kaffitíma, sms komu í stað símtala og vefsíður komu í stað funda. Í starfi mínu fyrir atvinnu-þróunarfélagið og núna Vestfjarðastofu hef ég orðið þess vör að fólk á aldri við mig (um sextugt) notar minna tölvusamskipti en ég hef vanist af höfuðborgarsvæðinu. Ef til vill ætti yngri kynslóðin að þjálfa, hvetja og kenna sér eldra fólki tölvulipurð svo að samskipti milli okkar alla gangi snurðulaust og allir geti auðveldlega verið með í uppbyggjandi umræðu ...  ja til dæmis fyrir sveitarstjórnarkosningar.

 

  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31