Fjallamennska I – Námskeið
Um helgina var haldið námskeið í fjallamennsku á Reykhólum fyrir björgunarsveitina. Sjö meðlimir tóku þátt og einn af þeim er nýskráður í björgunarsveitina, Snæbjörn Jónsson, og bjóðum við hann velkominn til starfa.
Á námskeiðinu voru kennd grunnatriði í ferðalögum um fjalllendi að vetri til. Farið var yfir helstu hættur og okkur kennd undirstöðuatriði í lestri á landslagi, sem og umhverfisvitund.
Á laugardeginum fórum við í Borgarlandið þar sem farið var yfir notkun ísaxar, mannbrodda og snjóýla ásamt helstu snjótryggingum. Að auki fékk Beggi á Gróustöðum að halda smá fyrirlestur um hvernig hægt er að skoða snjólög til að meta hættu á snjóflóðum. Sunnudagurinn var síðan lagður undir klettaklifur, þar sem helstu bergtryggingar voru prufaðar. Þá var aftur haldið í veðursældina í Borgarlandinu.
Björgunarsveitin Heimamenn vill koma þökkum á framfæri til kennarans, Heiðu Jónsdóttir fyrir kennsluna, Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hólmavík og Björgunarfélags Akraness fyrir að lána okkur þann búnað sem vantaði upp á til að geta haldið námskeiðið.
Að lokum viljum við minna á næsta námskeið, Fjarskipti I og Tetrafjarskipti, sem verður haldið 14.-15. mars á Reykhólum. Þá er farið yfir almenna þætti er snúa að notkun VHF-talstöðva og meðhöndlun þeirra, ásamt virkni Tetra-fjarskiptakerfisins, notendaumhverfi björgunarsveita í kerfinu og virkni notendabúnaðar.