Tenglar

fimmtudagur 26. mars2015 | Ágúst Már Gröndal

Tækjamót í Trékyllisvík 2015

Brynjólfur og Ágúst Már í snjótroðaranum Bamba. Mynd: Egill Sig.
Brynjólfur og Ágúst Már í snjótroðaranum Bamba. Mynd: Egill Sig.
1 af 7

Tækjamót Slysavarnafélagsins Landsbjargar 2015 var haldið á Ströndunum um síðustu helgi, 20.-22. mars. Alls tóku rúmlega 300 manns þátt í mótinu, sem Björgunarsveitin Strandasól í Árneshreppi skipulagði. Björgunarsveitin Heimamenn í Reykhólahreppi lét sig ekki vanta á grannaslóðir og mætti til leiks með Land-Roverinn sinn og snjótroðarann Bamba. Þeir félagar í sveitinni sem tóku þátt í mótinu voru Brynjólfur, Eiríkur, Egill, Eyvindur, Jens og Ágúst Már. Hér fyrir neðan er stiklað á stóru í ferðalagi Heimamanna.

 

Leiðin sem farin var

 

Föstudaginn 20. mars var Bambi fluttur að Kollabúðum í Þorskafirði á dráttarbíl Brynjólfs formanns. Þaðan var troðaranum ekið í samfloti við Land-Roverinn ásamt Hilux-i Jens Hanssonar sem leið lá að Steingrímsfjarðarheiði og hann síðan skilinn þar eftir. Að því búnu héldu menn til baka á bílnunum hver til síns heima.

 

Morguninn eftir um klukkan sex lögðu Brynjólfur, Eiríkur, Egill og Ágúst Már af stað frá Reykhólum á Land-Rover og Eyvindur á fjórhólinu sínu. Eyvi fór Þorskafjarðarheiði en við hinir ókum þjóðveginn og bættist Jens í hópinn hjá Mýrartungu.

 

Á Steingrímsfjarðarheiði þar sem Bambi beið hittumst við félagarnir og Bjarki frá Kjarlaksvöllum úr Björgunarsveitinni Ósk í Búðardal bættist í hópinn á sínum bíl. Ákvað Eyvi að skilja fjórhjólið sitt þar eftir og taka sér far með Bjarka, enda hvasst, blautt og skyggni lítið, og átti að versna. Lagði svo þríeykið af stað og var stefna sett á Hrollleifsborg á Drangajökli, sem var einn af áfangastöðunum á dagskrá tækjamótsins. Færið var gott en lítið skyggni og ferðahraðanum stjórnaði Bambi snjótroðari, sem fer að hámarki á 18-19 km hraða við bestu aðstæður. Taka þarf fram að ekkert fjöðrunarkerfi er á Bamba, þannig að þegar óslétt er, hryggir og hart færi, sækist ferðin hægt.

 

Á leiðinni norður eftir bættust tveir bílar í hópinn frá Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hólmavík og Björgunarsveitinni Ósk í Búðardal. Um hálftólf kom hópurinn að Hrolleifsborg, þar sem enginn var kominn, og var áð þar í SV-stormi. Það stoppaði samt ekki Bjarka, sem grillaði, og Eyvi dúkaði borð. Þeir voru bara flottir, á meðan við hinir héldum okkur innan dyra í bílunum.

 

Meðan beðið var eftir að fleiri hópar kæmu var hlustað á talstöðvar og fundið út að hópur var á leiðinni og átti eftir um hálfan annan kílómetra til okkar. Var farið að hugsa um að snúa við, þar sem veðrið var orðið mjög slæmt. Var því dúkur tekinn af borði okkar og pakkað saman og stefnan sett á þennan hóp. Við hittum síðan á hópinn sem samanstóð af einum stórum snjóbíl, Ísak, og sirka átta jeppum. Ákveðið var að snúa við, þar sem ferðin sóttist hægt, og greip um sig mikill ótti að missa af lambakjötinu sem átti að vera í boði niðri í Trékyllisvík um kvöldið.

 

Eftir að komið var niður af jökli var veðrið mun betra, breyttist í éljagang, færið var sléttara og sólin skein á milli élja. Fljótlega bilaði bíll í hópnum, frá Björgunarfélaginu Blöndu á Blönduósi, og var hann eftir það í kaðli aftan í Bamba alla leið niður á veg í Reykjafirði syðri. Þar voru 180 lítrar af olíu settir á Bamba úr brúsum sem voru meðferðis á pallinum, hann skilinn eftir, pumpað í dekk á Land-Rover og ekið norður í Trékyllisvík í lambasteikina og áfram í Norðurfjörð að fylla á olíutankinn.

 

Saddir og sælir lögðum við af stað um hálfníuleytið til baka heim á leið upp úr Reykjafirði, með Steingrímsfjarðarheiði sem næsta áfangastað. Ferðin gekk vel undir tryggri leiðsögn Brynjólfs formanns, að því undanskildu, að framrúðuþurrkurnar á Bamba hættu að virka. Það var leyst með snærisspotta sem notaður var til að draga þurrkurnar fram og til baka, því að næsta nauðsynlegt er að sjá hvort grjót eða hvað eina annað er framundan.

 

Á Steingrímsfjarðarheiði kvöddum við ferðafélaga okkar frá Hólmavík og úr Dölunum og héldum áfram sem leið lá suður yfir Þorskafjarðarheiði að Kollabúðum. Þar var Bambi settur á vagn, pumpað í dekk á Land-Rover og lagt af stað seinasta spölinn. Heim á Reykhóla var komið um hálftvö eftir um nítján tíma ferðalag. Menn voru þreyttir og einhverjir reynslu ríkari. Tvímælalaust er hægt að mæla með svona ferðum.

 

Við þökkum samferðamönnum okkar fyrir þennan samverutíma og færum kveðju til allra félaga okkar í Björgunar- og slysavarnafélögum landsins.

 

– Björgunarsveitin Heimamenn.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31