Tenglar

13. júní 2008 |

150 ár frá fæðingu Herdísar og Ólínu Andrésdætra

Herdís, María og Ólína Andrésdætur.
Herdís, María og Ólína Andrésdætur.

Í dag, 13. júní, er hálf önnur öld liðin frá fæðingu tvíburasystranna og skáldkvennanna Herdísar og Ólínu Andrésdætra í Flatey á Breiðafirði. Þær voru „af hinni merku breiðfirsku skáldaætt, sem sjera Matthías gerði frægasta", eins og séra Jón Auðuns komst að orði. Í grein um þær systur í Lesbók Morgunblaðsins fyrir rúmum áratug (sjá neðst) segir Ármann Jakobsson bókmenntafræðingur:

Herdís og Ólína eru dæmi um að merk skáld Íslandssögunnar geta fallið milli stafs og hurðar bókmenntaumræðunnar. Þó að þær nytu virðingar meðal bókmenntamanna, þ. á m. Sigurðar Nordals og Guðmundar Finnbogasonar, í lifanda lífi hafa þær litla umfjöllun hlotið hin síðari ár... Vonandi mun þó koma að því að bætt verði úr.

 

Svolítið fyrir áhugafólk um ættatengsl: Þær systurnar og Theodora Thoroddsen skáldkona voru náfrænkur. Listamaðurinn Muggur (Guðmundur Thorsteinsson) frá Bíldudal var frændi þeirra (systursonur Theodoru). Þær voru einnig náfrænkur þjóðskáldsins séra Matthíasar Jochumssonar frá Skógum í Þorskafirði og Björns Jónssonar ritstjóra Ísafoldar og bókmenntaþýðanda úr Djúpadal í Gufudalssveit, sem var annar ráðherra Íslands í upphafi heimastjórnar, næstur á eftir Hannesi Hafstein, og faðir Sveins Björnssonar fyrsta forseta Íslands.

 

Herdís Andrésdóttir eignaðist sjö börn með eiginmanni sínum, Jóni Einari Jónssyni frá Steinnesi í Húnaþingi. Af þeim dóu fjögur í frumbernsku en þrjú komust til aldurs. Mann sinn missti Herdís árið 1889 eftir aðeins átta ára hjúskap. Ólína Andrésdóttir giftist ekki en eignaðist tvær dætur með Guðbrandi Sturlaugssyni úr Svefneyjum, bónda í Hvítadal í Saurbæ í Dalasýslu. Önnur þeirra dó í frumbernsku en hin komst til aldurs.

 

Myndin sem hér fylgir birtist með áðurnefndri grein Ármanns Jakobssonar og þar er textinn svohljóðandi:

 

„Þar sitja systur" orti Theodora Thoroddsen. Hér sitja þær systur og frænkur hennar, Herdís og Ólína Andrésdætur, en María systir þeirra á milli. Hún varð einn elsti Íslendingur fyrr og síðar, 106 ára. (Mynd úr Ljóðmælum).

 

Oftast er þeirra Herdísar og Ólínu getið beggja í senn. Saman gáfu þær út Ljóðmæli, fyrst árið 1924 þegar þær voru liðlega hálfsjötugar og aftur 1930 þegar þær voru komnar á áttræðisaldur. Heildarsafn ljóða þeirra kom út í litlu upplagi árið 1976 og var endurútgefið 1980 og 1982. Væntanlega hefur það ekki hvarflað að þeim mjög lengi fram eftir aldri að ljóð þeirra yrðu gefin út.

 

Ármann Jakobsson segir einnig í grein sinni (þess mætti minnast hér, að þeir fræðimennirnir Ármann og Sverrir Jakobssynir eru tvíburar líkt og þær systur Herdís og Ólína og jafnframt af sama breiðfirska ættarmeiðnum; margir muna afburða frammistöðu þeirra í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, fyrir mörgum árum):

 

Sjaldan er rætt um þær nema sem tvíeyki, Herdísi og Ólínu. Þannig er mynd af þeim saman (ásamt Maríu systur þeirra) í upphafi bókar og saman áttu þær í hrekkjóttu stríði við Þórberg Þórðarson sem sagt er frá í Eddu hans. Þá sjaldan að þær koma fyrir í yfirlitsritum um íslenskar bókmenntir eru þær og jafnan saman og virðast illaðgreinanlegar eins og títt er um tvíbura.

 

Ekkert er fyllilega sem sýnist. Vissulega voru þær samrýndar en áttu þó ekki samleið nema í bernsku og á efri árum í Reykjavík. Yrkisefni þeirra eru einnig um margt svo lík að furðu sætir, en á skáldskap þeirra eigi að síður munur, enda þótt hluti hans sé í samlögum þeirra, t.d. gamankvæði þar sem hvor botnar hjá annarri og kvæði úr hversdagslífinu, s.s. ljóðbréf til Theodoru frænku þeirra. Þannig er allmikill munur á afköstum þeirra, kveðskapur Herdísar er minni að vöxtum, Ólína afkastameiri auk þess sem kvæði hennar eru fjölbreyttari og ekki leynir sér að hún var meðvitaðri um skáldskapinn, leit fremur á sig sem fagmann. Þannig liggur ekki nema ein þula eftir Herdísi en þær yrkir Ólína.

 

Þulur Ólínu Andrésdóttur eru nátengdar þulum frænku hennar, Theodoru Thoroddsen. Þulan er ein merkasta bragnýjung íslenskrar ljóðagerðar frá dögum Jónasar fram að atómskáldskap og ekki síður fyrir að vera kvennabylting, en vera má að það skýri fálætið sem þulum hefur verið sýnt í bókmenntasögunni.

 

Sr. Jón Auðuns þáverandi fríkirkjuprestur og síðar dómprófastur skrifaði minningargrein við andlát Ólínu Andrésdóttur sumarið 1935. Þar segir m.a.:

 

Hún var fædd af hinni merku breiðfirsku skáldaætt, sem sjera Matthías gerði frægasta, og ljóðgáfu ættar sinnar erfði hún í ríkum mæli. Æskuljóð hennar eru að langmestu glötuð. Það var fyrst á efri árum hennar, í Reykjavík, að vinir hennar komust að raun um, hvílíkt skáld hún var, og þegar þeir fóru að grenslast eftir ljóðagerð hennar, kom það upp úr kafinu, að hún átti varla til eftir sig skrifaða vísu og var nærri feimin við að hafa yfir fyrir öðrum það, sem hún mundi. Margt var glatað. Þess vegna eru því nær öll ljóð hennar, sem prentuð eru í bókum þeirra systra, frú Herdísar og hennar, frá efri árum. Þulur hennar og ljóð urðu landfleyg á skömmum tíma og sem dæmi vinsældanna má geta þess, að við brot úr hinum fagra ljóðaflokki hennar: „Til næturinnar", hafa þegar þrjú tónskáld samið lög.

 

Dr. Sigurður Nordal skrifaði minningargrein við andlát Herdísar Andrésdóttur vorið 1939. Þá var Ólína látin tæpum fjórum árum fyrr, og fer að vonum, að grein Sigurðar fjallar mjög um þær systur báðar. Sigurður segir m.a.:

 

Í huga þjóðarinnar eru þær skáldkonurnar Herdís og Ólína óaðskiljanlegar, og fyrir gamlan vin, sem þær voru báðar jafnkærar, er ekki unt að minnast annarar án þess að minnast beggja. Þær voru, eins og kunnugt er, tvíburar, mjög líkar í sjón, einkum á yngri árum, líkar að gáfum og mannkostum. Leiðir þeirra skildust að vísu í bernsku, aðalbaráttu lífsins háðu þær hvor út af fyrir sig og hvor með sínum hætti, og samfundir þeirra munu hafa verið strjálir, þangað til vegirnir lágu loks aftur saman hjer í Reykjavík, þegar þær voru um sextugt. En því meiri furða var, hversu svipuðum þroska þær náðu báðar, enda var það jafnan yndi fyrir þær að vera saman, og síðustu árin, sem Ólína lifði, hittust þær að heita mátti daglega. Það sem helst virtist gera mun þeirra systranna, gerði jeg mjer jafnan í hugarlund, að stafaði fremur frá lífskjörum þeirra en upplagi.

 


Greinar þær sem vitnað er til má lesa hér í heild (Word-skjöl):

 

Athugasemdir

Þrymur Sveinsson, sunnudagur 15 jn kl: 12:50

Þær systur Ólína og María langamma mín sáust ekki sem fullorðnar fyrr en þær voru um fimmtugt. Faðir þeirra Andrés fórst ásamt blóma karlpenings í Flatey þegar Snarfari fórst 1861. Segir m.a af því í ævisögu Snæbjarnar Kristjánssonar í Hergilsey. Margir áttu um sárt að binda eftir slysið og tvístruðust fjölskyldurnar þegar fyrirvinnuna skorti.
María var á ferð með strandferðaskipi og sér konu sem henni finnst vera kunnugleg. Hún vindur sér að henni og spyr. Ekki vænti ég að þú heitir Ólína Andrésdóttir. Jú og hver er manneskjan spyr Ólína á móti. María heiti ég og er systir þín.
Urðu fagnarðar fundir og margt var skrafað upp frá því. Ekki vissi ég að langamma skyldi eftir sig margt ljóða en afi, Jón Daðason sagði að hún hefði átt lett með að setja saman vísu og ekki verið síðri en systur hennar og frænka Theodóra Thoroddsen en þær voru systkynabörn.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31