150 kílómetra fýluferð í Lyfju í Búðardal
Björk Stefánsdóttir á Reykhólum er verulega ósátt vegna fýluferðar í Lyfju í Búðardal í dag og líka vegna þess að ekki skuli vera hægt að hafa algengustu og nauðsynlegustu lyf tiltæk á Heilsugæslustöðinni á Reykhólum. „Ég ætlaði í Lyfju, en nei, vegna manneklu er lokað þar eftir hádegi bæði í dag og á morgun. Mér finnst allt í lagi þar sem Lyfja í Búðardal á að þjónusta þetta svæði, að senda kannski eitt lítið dreifibréf eða henda upp auglýsingu í búðinni hérna eða koma þessu á Reykhólavefinn sem er einfaldast, þetta er „ekki nema“ 150 kílómetra keyrsla fram og til baka,“ segir hún.
„Hugsið ykkur þjónustuna sem við hérna búum við. Þú ferð til læknis þegar hann er með viðveru á Reykhólum og þarft pensilín, og þá þarftu að láta senda það með pósti úr Búðardal, eða sækja það þangað ef óheppilegt er að bíða. Af hverju er ekki hægt að hafa þetta allra nauðsynlegasta til á Heilsugæslunni hér, verkjalyf og pensilín til dæmis? Ef heppnin er með, þá færðu lyfin í pósti daginn eftir eða hinn daginn. En ef þú ert að drepast í bakinu, þá skaltu gjöra svo vel að keyra þessa 150 kílómetra fram og til baka því að þú bíður ekki dögum saman eftir verkjalyfjum sem þú þarft strax. Og svo þegar komið er á staðinn, þá er bara lokað vegna manneklu án þess að haft sé fyrir því að láta vita af því. Mér finnst þetta mjög léleg þjónusta,“ segir Björk Stefánsdóttir.
Margrét Guðlaugsdóttir, mnudagur 23 september kl: 20:29
Ég er sannarlega sammála þér Björk,þetta er engin þjónusta.