Tenglar

23. september 2013 | vefstjori@reykholar.is

150 kílómetra fýluferð í Lyfju í Búðardal

Björk Stefánsdóttir á Reykhólum er verulega ósátt vegna fýluferðar í Lyfju í Búðardal í dag og líka vegna þess að ekki skuli vera hægt að hafa algengustu og nauðsynlegustu lyf tiltæk á Heilsugæslustöðinni á Reykhólum. „Ég ætlaði í Lyfju, en nei, vegna manneklu er lokað þar eftir hádegi bæði í dag og á morgun. Mér finnst allt í lagi þar sem Lyfja í Búðardal á að þjónusta þetta svæði, að senda kannski eitt lítið dreifibréf eða henda upp auglýsingu í búðinni hérna eða koma þessu á Reykhólavefinn sem er einfaldast, þetta er „ekki nema“ 150 kílómetra keyrsla fram og til baka,“ segir hún.

 

„Hugsið ykkur þjónustuna sem við hérna búum við. Þú ferð til læknis þegar hann er með viðveru á Reykhólum og þarft pensilín, og þá þarftu að láta senda það með pósti úr Búðardal, eða sækja það þangað ef óheppilegt er að bíða. Af hverju er ekki hægt að hafa þetta allra nauðsynlegasta til á Heilsugæslunni hér, verkjalyf og pensilín til dæmis? Ef heppnin er með, þá færðu lyfin í pósti daginn eftir eða hinn daginn. En ef þú ert að drepast í bakinu, þá skaltu gjöra svo vel að keyra þessa 150 kílómetra fram og til baka því að þú bíður ekki dögum saman eftir verkjalyfjum sem þú þarft strax. Og svo þegar komið er á staðinn, þá er bara lokað vegna manneklu án þess að haft sé fyrir því að láta vita af því. Mér finnst þetta mjög léleg þjónusta,“ segir Björk Stefánsdóttir.

 

Athugasemdir

Margrét Guðlaugsdóttir, mnudagur 23 september kl: 20:29

Ég er sannarlega sammála þér Björk,þetta er engin þjónusta.

Björg Karlsdóttir, mnudagur 23 september kl: 22:06

óþolandi lélegt!

berglind vésteinsdòttir, mnudagur 23 september kl: 22:26

Hrikalega lélegt

Bára Hjaltadóttir, mnudagur 23 september kl: 22:33

Ekki nokkrum bjóðandi í nútímaþjóðfélagi.

Anna Sigríður, rijudagur 24 september kl: 01:27

Þetta er viðloðandi í Dölum, sjaldan ef aldrei neitt opið. Eina búðin á svæðinu styttir opnunartímann án þess að auglýsa, núna seinast 31. ágúst (undarlega dagsett breyting á sumar og vetrartíma?). Vörutalning er yfirleitt ekki auglýst nema með blaðsnepli í búðinni sjálfri, en það sér það ekkert hver maður. Opnunartímar hvers kyns þjónustu eru fáir, og það ætti kannski að nefna skammarlegan opnunartíma sundlaugarinnar. Er ekki fólki bjóðandi. Auðvitað á að vera hægt að geyma sýklalyf og verkjatöflur, það er bara almenn þjónusta við fólk.

Harpa Eiríksdóttir, rijudagur 24 september kl: 10:00

Einnig er mjög pirranddi að ef sveitungum vantar lyf þá þurfa þeir að borga sendingarkostnað - sem er um 700 kr..í staðinn fyrir að það sé hægt að geyma það á Reykhólum og með því bjóða betri þjónustu.

Þórður Ingólfsson, rijudagur 24 september kl: 11:53

Mig langar aðeins að blanda mér í þessa ágætu umræðu þar sem ég þykist vel kunnugur þessum málum hér í héraðinu okkar. Það er sannarlega ekki gott að Lyfja í Búðardal loki heilan dag og fyrir neðan allar hellur er að það sé gert án þess að það sé auglýst með dreifibréfi. Ég tek því heilshugar undir með ykkur hvað þetta atriði varðar og mun koma á framfæri athugasemdum við stjórn Lyfju vegna þessa. Mér er mjög annt um að þessi þjónusta verði ekki skert meira en þegar hefur orðið.

Hins vegar verð ég líka að gera ahugasemd við hitt atriðið sem hér hefur verið til umræðu en það er að ekki séu nauðsynlegustu sýkla- og verkjalyf til á Reykhólum. Þau eru þar til og verða vonandi áfram. Sannarlega má deila um hvað eru "nauðsynlegustu" lyfin í þessum flokkum og sannarlega eru ekki öll verkja- og sýklalyf til á Reykhólum. Um þetta hefur hins vegar verið samkomulag milli lækna í Búðardal og Lyfju. Ef reynsla íbúanna er sú að lyfjalager Reykhóla sé ónægur er um að gera að koma ábendingum um það til Lyfju í Búðardal eða til lækna í Búðardal.

Björk Stefánsdóttir, rijudagur 24 september kl: 12:22

Já kannski var þetta fljótfærni í mér Þórður og "pirringur" ég get svosem ekki og á ekki að tjá mig um hvað er til og ekki á heilsugæslunni, og hef ekki vit á því.....Ég vil líka kannski koma því á framfæri að ég hef aldrei átt í neinu veseni við Heilsugæsluna, hvorki hér né í Búðardal, bara góð samskipti.
Bestu kveðjur
Björk

Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður Reykhólavefjarins, rijudagur 24 september kl: 13:04

Innskot rétt eftir hádegi á þriðjudegi: Umsjónarmaður Reykhólavefjarins tekur að jafnaði ekki afstöðu til ágreiningsmála sem hér er rætt um eða deilt um. Hins vegar minnir hann á, að einn megintilgangur vefjarins, auk þess að koma almennum upplýsingum á framfæri, er að koma áleiðis ólíkum sjónarmiðum og viðhorfum í málefnum fólks í Reykhólahreppi, hvort heldur varðar sveitarfélagið í heild eða einstaklinga sem þar búa eða eiga hagsmuni. Núna um eittleytið eftir hádegi hefur fréttin um ferð Bjarkar Stefánsdóttur í Búðardal verið opnuð (full frétt, Meira) rúmlega 900 sinnum frá því að hún var sett hér inn rétt fyrir klukkan sex í gærkvöldi. Til samanburðar má nefna, að fólksfjöldi í Reykhólahreppi er um 280 manns. Áréttað skal, að vissulega er gott að festa upp A-4 blöð einhvers staðar í hreppnum en heppilegt mætti telja að koma hlutunum einnig á framfæri hér á vefnum.

Þórður Ingólfsson, rijudagur 24 september kl: 18:18

Gott að heyra þetta Björk.
Þetta er hárrétt hjá þér Hlynur, að sjálfsögðu ætti Lyfja að nota Reykhólavefinn til að koma skilaboðum til íbúa, hvort sem einnig væri sent dreifibréf eða ekki. Ég ætla að koma þeirri ábendingu til þeirra. Við í heilsugæslunni gætum líka notað þennan vef meira og ég mun leggja mitt af mörkum til þess. Vil nota tækifærið og hrósa þér Hlynur og Reykhólamönnum almennt fyrir vefinn sem ég kíki oft inná.

Þórbergur Egilsson, mnudagur 30 september kl: 10:42

Okkur hjá Lyfju þykir mjög miður þau óþægindi er þessi óvænta lokun hjá okkur í Búðardal olli. Í þessu tilfelli vorum við því miður komin upp að vegg þar sem enginn starfsmaður var tiltækur en við höfum nú auglýst eftir starfsmanni úm nokkurt skeið.
Við munum gera allt til að þetta komi ekki fyrir aftur og höfum fullan hug á að þjóna ykkar samfélagi eins vel og okkur er fært.
Með bestu kveðjum til ykkar allra.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30