21. Strandagangan á laugardag
Strandagangan 2015 verður haldin í Selárdal við Steingrímsfjörð á laugardaginn. Hún er hluti af Íslandsgöngunni, mótaröð sem haldin er á sex stöðum víðs vegar um landið. Keppt er í fjórum vegalengdum eða 1 km, 5 km, 10 km og 20 km, og eru rástímar kl. 12.30 og 13. Stysta gangan er eingöngu fyrir 10 ára og yngri. Keppendum er boðið að hlýja sér í heitum pottum á Hólmavík að keppni lokinni. Að því búnu fer fram verðlaunaafhending í Félagsheimilinu þar sem einnig verða framreiddar glæsilegar kaffiveitingar.
Loks verður skíðaleikjadagur í Selárdal á sunnudag, þangað sem öll börn eru boðin velkomin án endurgjalds.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu göngunnar, Facebooksíðu hennar (Skíðafélag Strandamanna Hólmavík) og vef Strandabyggðar.
Gangan í ár er 21. Strandagangan. Af því tilefni fá allir þátttakendur vegleg þátttökuverðlaun. Fyrsta Strandagangan var haldin á Hólmavík snjóaveturinn 1995.