Tenglar

29. október 2011 |

30 ára afmælisfagnaður Nikkólínu í vændum

Myndir frá starfi Nikkólínu í 30 ár.
Myndir frá starfi Nikkólínu í 30 ár.
1 af 9

Harmonikufélagið Nikkólína verður 30 ára eftir rúma viku og verður haldið upp á það með afmælishátíð í Félagsheimilinu Árbliki í Dölum laugardagskvöldið 19. nóvember. Þar verður matarveisla og skemmtun og að sjálfsögðu harmonikuball á eftir og allir velkomnir. Nauðsynlegt er að tilkynna þátttöku sem allra fyrst og helst í síðasta lagi núna á mánudaginn ef ætlunin er að vera með í þessu öllu en líka er hægt að koma bara á ballið.

 

Þátttöku er hægt að tilkynna til Hafliða í Garpsdal (434 7799), Ásgerðar á Kverngrjóti í Saurbæ (434 1502) eða Jóhanns á Skerðingsstöðum í Hvammssveit (434 1276). Húsið verður opnað kl. 19 en borðhald hefst kl. 19.30. Aðgangseyrir í borðhaldið og skemmtunina og á ballið er kr. 5.000 en ef aðeins er komið á ballið er hann kr. 2.000.

 

Hafliði Ólafsson í Garpsdal er eini félagsmaðurinn í Nikkólínu sem búsettur er í Reykhólahreppi. Hann segist að vísu varla starfa í félagsskapnum ef enn þyrfti að aka fyrir Gilsfjörð til að komast á æfingar eins og áður var.

 

Nikkólína var upphaflega stofnuð sem félag áhugafólks um harmonikuleik í Dalasýslu en hlaut núverandi nafn ekki alveg strax. Harmonikufélag Dalasýslu var stofnað 7. nóvember 1981 og helsti hvatamaður að stofnun þess og fyrsti formaður var Kristján Ólafsson, þáverandi tónlistarkennari í Búðardal. Á aðalfundi haustið eftir var félaginu svo gefið nafnið Nikkólína og var það Ragnar Ingi Aðalsteinsson skáld frá Vaðbrekku á Jökuldal sem átti nafnið.

 

Núna þegar tímar hafa liðið eru félagsmenn búsettir víðs vegar enda hættir fólk ekkert í félaginu þó að það flytji í burtu, að sögn Melkorku Benediktsdóttur á Vígholtsstöðum skammt norðan við Búðardal, sem er í hinum stóra hópi félagsmanna. Stofnfélagar voru tíu, þar af ein kona, en fljótlega fór hópurinn að stækka. Núna eru félagar 55 talsins en að vísu ekki allir virkir. Konan í hópi stofnenda var Hólmfríður Kristjánsdóttir á Seljalandi í Hörðudal. Líka var Ingibjörg Kristinsdóttir á Skarði á Skarðsströnd virkur félagi allt til dauðadags. „Núna eru kynjahlutföllin orðin ansi góð og fyrir hefur komið að fleiri konur hafa verið að spila en karlar þegar við höfum komið saman“, segir Melkorka.

 

Æfingar hjá Nikkólínu eru yfirleitt hálfsmánaðarlega yfir veturinn en liggja niðri yfir sumarið.

  

Nikkólínufélagar fara víða til að spila, þar á meðal fór fjórtán manna sveit á Landsmótið á Hellu í sumar. Auk þess fór sveitin þrisvar norður í land í sumar að spila, á Blönduósi í júní, á Skagaströnd í ágúst og síðan í Varmahlíð í Skagafirði að spila þar í fjölmennu afmæli. Við slík tækifæri spila þó ekki allir á nikku heldur eru líka bassagítarar og trommur.

 

„Flest höfum við verið átján þegar við fórum á Siglufjörð árið 1999“, segir Melkorka, „þar af fjögur ungmenni. Halldór Þ. Þórðarson hefur verið svo duglegur að hafa nemendurna sína með. Hann var einn af stofnfélögunum og hefur verið límið í þessu og leitt hljómsveitina öll þessi ár. Stundum höfum við líka fengið utanaðkomandi til að æfa fyrir landsmótin sem eru þriðja hvert ár.“

 

Halldór Þ. Þórðarson er frá Breiðabólstað á Fellsströnd en búsettur í Búðardal. Hann er fyrrverandi skólastjóri tónlistarskólans þar en er ennþá organisti í Hjarðarholtsprestakalli. Núverandi formaður Nikkólínu er Ásgerður Jónsdóttir á Kverngrjóti.

 

Þess má geta, að Samband íslenskra harmonikuunnenda gefur út Harmonikublaðið þrisvar á ári. Auk þess heldur sambandið úti vefsíðunni harmonika.is.

  

Hér fylgja allmargar svipmyndir í óreglulegri tímaröð frá starfi Nikkólínu fyrr og síðar. Smellið á myndirnar til að stækka. Þær er einnig að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur í valmyndinni hér vinstra megin.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30