Tenglar

18. mars 2013 | vefstjori@reykholar.is

4,7 tonn af frágengnu sorpi fóru í endurvinnslu

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri, Jón Þór Kjartansson og Eðvarð Þór Sveinsson bílstjóri við gáminn rétt fyrir brottförina.
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri, Jón Þór Kjartansson og Eðvarð Þór Sveinsson bílstjóri við gáminn rétt fyrir brottförina.
1 af 5

Flutningabíllinn frá Gámaþjónustu Vesturlands sem kom með moltugerðarhúsið vestur á Reykhóla (sjá næstu frétt hér á undan) fór ekki „tómhentur“ til baka. Hann tók í staðinn sneisafullan gám af frágengnu og pökkuðu sorpi til endurvinnslu, samtals 4,7 tonn, sem til hefur fallið á gámasvæðinu á Reykhólum síðasta hálfa árið. Þarna fóru alls 75 pressaðir baggar og fjórir stórsekkir af pappír.

 

Byrjað var að flokka sorp á Reykhólum 15. september og þann dag kom jafnframt sorppressa. „Þetta hefur gengið mjög vel í alla staði“, segir Jón Þór Kjartansson, umsjónarmaður endurvinnslunnar á Reykhólum. „Segja má að þetta sé 99 prósent rétt gert hjá fólki, sett í rétt hólf á gámnum og ílátin hrein.“

 

Lúgurnar fyrir endurvinnanlegt rusl eru fjórar.

 

„Í fyrsta lagi er pappi, þessi dæmigerði bylgjupappi. Í öðru lagi fernur undan mjólk og djús og aðrar vaxbornar fernur. Í þriðja lagi er plast sem fer allt í sama hólf, hvort sem það er glært plast, litað plast eða harðplast. Það flokka ég svo nánar, allt harðplast sér og allt litað plast sér. Allt þetta set ég í pressu og síðan er þetta bundið í bagga sem ég raða inn í gám“, segir Jón.

 

„Í fjórða lagi er pappírinn, dagblöð og allur prentpappír og gluggapósturinn og annar pappír. Þetta setur maður bara í stóran sekk sem tekur kannski tonn. Það er ekki svo hlaupið að því að pressa pappírinn.“

 

Jón ítrekar að hann er ánægður með viðbrögð almennings varðandi flokkunina sem og með fráganginn. „Það sem kemur til mín flokkað er til fyrirmyndar. Hins vegar veit ég ekki hvort ég fæ allt sem ætti að flokka. Væntanlega fer eitthvað af því óflokkað í gámana fyrir almennt heimilissorp. Þar mættu kannski einhverjir gera betur.“

 

Fram að þeim tíma þegar flokkunin hófst fyrir hálfu ári voru sex gámar fyrir almennt heimilissorp á gámasvæðinu neðan við Reykhólaþorp. Núna eru þeir aðeins tveir og segir það sína sögu um viðbrögð fólks. Jón segir að alveg sé mögulegt að innan tíðar verði gámurinn aðeins einn.

 

„Bæði ef allir flokka sorpið en ekki bara flestir, og líka hitt, að núna er moltugerðin að koma til sögunnar. Þá fer það lífræna sem til fellur ekki lengur í gám fyrir almennt heimilissorp heldur í sérstakt ílát þarna við grindverkið.“

 

Svo verður lífræni úrgangurinn að moltu sem gagnast við hvers konar garðrækt í heimabyggð - og Reykhólahreppur þarf ekki að standa undir kostnaði við mörg hundruð kílómetra akstur sorphirðubíla fram og til baka til að losna við hann.

 

„Við værum ekki að þessu ef það væri ekki hagkvæmt“, segir Jón Þór Kjartansson.

 

Hann veitir jafnframt nánari upplýsingar um flokkunina og frágang sorpsins eftir því sem þörf krefur.

 

 18.03.2013 Moltugerðarstöð komin á Reykhóla

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30