720 þúsund á fimm árum
Stjórn Handverksfélagsins Össu hefur fært Félagsmiðstöðinni Skrefinu í Reykhólaskóla ágóðann af sölunni á bóka- og nytjamarkaði félagsins í Króksfjarðarnesi á síðasta sumri, að fjárhæð kr. 130.000. Gjöfin mun nýtast til fræðslu- og forvarnarstarfa fyrir nemendur Reykhólaskóla. Að þessari gjöf meðtalinni hefur Handverksfélagið Assa gefið kr. 720.000 til samfélagsins í Reykhólahreppi, sem aflast hafa eingöngu með sölu á bókum og ýmsum munum á nytjamarkaðinum þau fimm sumur sem hann hefur starfað.
Styrkirnir frá Össu hafa fallið þannig:
- 2010 - Vinafélag Grettislaugar, Vinafélag Barmahlíðar og Bókasafn Reykhólahrepps kr. 150.000.
- 2011 - Kvenfélagið Katla og Lionshreyfingin í Reykhólahreppi kr. 160.000.
- 2012 - Ungmennafélagið Afturelding og Björgunarsveitin Heimamenn kr. 130.000.
- 2013 - Vinafélag Grettislaugar kr. 150.000.
- 2014 - Félagsmiðstöðin Skrefið kr. 130.000.
Eins og hér hefur áður komið fram verður Assa núna í sumar eins og undanfarin ár með handverksmarkað í Kaupfélagshúsinu í Króksfjarðarnesi í samstarfi við Össusetur Íslands.
Stjórn Handverksfélagsins Össu skipa Erla Björk Jónsdóttir formaður, Ingibjörg Kristjánsdóttir gjaldkeri og Signý Magnfríður Jónsdóttir ritari.
Jóhanna Fríða Dalkvist, fimmtudagur 07 ma kl: 15:54
Frábær frétt, virkilega vel gert!!!
Í bónus við skemmtilegheitin gæti verið að vita hversu margir telja krakkana á myndinni (130 fingur á lofti gaf færi á því :) )... ég gerði það allavega :)