90. sambandsþing UDN haldið á Reykhólum
Í 90 ára afmælisfagnaðinum, sem haldinn var í Búðardal, flutti Egill Sigurgeirsson á Mávavatni á Reykhólum samantekt um stofnun Ungmennasambands Norður-Breiðfirðinga og ungmennafélög sem starfað hafa í Austur-Barðastrandarsýslu. Þar kemur fram, að á fyrri tíð voru starfandi ungmennafélög í öllum hreppunum fimm í sýslunni, sem frá 1987 mynda saman Reykhólahrepp hinn nýja. Eftirfarandi kom fram í máli Egils:
Ungmennasamband Norður-Breiðfirðinga var stofnað í Flatey 1. desember 1936 og hafði Ungmennafélagið í Flatey forgöngu um stofnun þess. Sambandssvæðið spannaði Austur-Barðastrandarsýslu með eftirtöldum félögum:
- Ungmennafélagið í Flatey, stofnað 1909 (ekki vitað hvenær það varð óvirkt).
- Ungmennafélagið Vísir í Múlasveit, stofnað 1928 (síðasti skráði fundur 1957).
- Ungmennafélagið Hvöt í Gufudalssveit, stofnað 1927 (starfsemin leggst af um 1956).
- Ungmennafélagið Unglingur í Geiradal, stofnað 1909 (síðasti skráði fundur 1980, sameinað Aftureldingu 1989).
- Ungmennafélagið Elding í Reykhólasveit, líklega 1906-1910, en litlar heimildir eru til um félagið.
- Ungmennafélagið Afturelding í Reykhólasveit, stofnað 1924, starfar enn og er jafnframt eina starfandi ungmennafélagið í Austur-Barðastrandarsýslu / Reykhólahreppi.
Áður en Ungmennasamband Norður-Breiðfirðinga var stofnað tilheyrðu félögin á svæðinu Ungmennasambandi Vestfjarða (UMSV).
Myndasyrpu frá 90 ára afmælisfagnaði UDN í nóvember 2008 er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > UDN 90 ára í valmyndinni hér til vinstri. Stofnun UDN er miðuð við stofnun Ungmennasambands Dalamanna enda þótt Ungmennasamband Norður-Breiðfirðinga hafi komið til skjalanna síðar. Myndirnar tók Þórarinn Ólafsson.
Sjá nánar um dagskrá 90. sambandsþingsins á vef UDN.
11.11.2008 Ungmennafélög voru í öllum hreppum Austursýslunnar
14.03.2011 Afturelding 87 ára í dag en ber aldurinn vel