Tenglar

10. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Á Stað er foss sem fellur, með fjöri haust og vor

Séra Ólafur E. Johnsen á Stað.
Séra Ólafur E. Johnsen á Stað.

Meðal annara sem komu hingað kynnisför til höfuðstaðarins með strandferðaskipinu um daginn, var hinn þjóðkunni ágæti prestaöldungur prófastur síra Ólafur E. Johnsen r. af dbr.*) á Stað á Reykjanesi, er ljet af prestskap í vor eptir nær hálfrar aldar fyrirtaks-embættisþjónustu, hátt á áttræðisaldri. Í samkvæmi er honum var haldið í heiðursskyni í hótellinu Alexandra hjer í bænum 27. þ. m. og þar sem voru saman komnir margir vinir hans og vandamenn, fornkunningjar og yngri skjólstæðingar, var sungið fyrir minni hans þetta kvæði eptir síra Matthías Jochumsson, er var einn [einn af gestunum] í samkvæminu.

 

Þannig hljóðar frétt í vikublaðinu Ísafold 30. júlí 1884, með yfirskriftinni Heiðursminning, sem Árni Snæbjörnsson frá Stað á Reykjanesi gaukaði að umsjónarmanni þessa vefjar. Næsta víst má telja, að fréttina hafi skrifað Björn Jónsson ritstjóri, sem raunar skrifaði sjálfur nær allar fréttir í blaði sínu í hálfan fjórða áratug. Og síðan kemur þar kvæði séra Matthíasar:

 

Sit heill, vor heiðurs-gestur,

þótt halli dagsins stund;

ver enn með ungum ungur,

og ern og hress í lund.

 

Þú sómir vel í sæti,

með sjö og hálfan tug,

með beinar hetju herðar

og heilan sálar dug.

 

Í hverri stjett og stöðu,

við stríð sem gleði-skál,

þitt formanns rúm þú fyllir,

með fjöri, þrótt og sál.

 

Þitt sæti vel þú varðir,

er valsinn sveif í hring,

og drósir færri firrtust,

hinn fríða Íslending.

 

Og sess þinn eins þú sæmdir,

er settist þú á knör,

þá svall með svölum bárum,

þitt sækonunga-fjör.

 

Og sess í heiðurs húsi,

þú hefir lengi prýtt,

sem fyrstur hinna fremstu,

um fjarða plássið vítt.

 

Þinn sess í herrans húsi,

þú hefir fyllt með dáð;

þú stóðst sem kjörinn kóngur,

þá kenndir drottins náð.

 

Á Stað er foss sem fellur,

með fjöri haust og vor,

hann syngur Ólafs sögu,

þá sól er bak við Skor.

 

Sit heill, vor heiðurs-gestur,

og hafðu fyllstu þökk,

og hljóttu yndi og æru,

sem óska brjóst vor klökk.

 

 

Björn Jónsson frá Djúpadal í Gufudalssveit (1846-1912) stofnaði blaðið Ísafold áratug áður en þetta birtist eða haustið 1874. Björn var ritstjóri og útgefandi Ísafoldar nær óslitið í 35 ár eða til 1909 þegar hann var skipaður ráðherra Íslands næstur á eftir Hannesi Hafstein. Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, var sonur Björns Jónssonar.

 

Séra Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði (1835-1920) var um skeið harðasti keppinautur granna síns í Austur-Barðastrandarsýslu í æsku, Björns Jónssonar. Vorið 1874 eða fáeinum mánuðum áður en Björn stofnaði Ísafold keypti Matthías blaðið Þjóðólf, sem þá hafði komið út í rúmlega aldarfjórðung og var öflugasta blaðið hérlendis. Hann var síðan ritstjóri og útgefandi Þjóðólfs næstu sex árin. Ísafold varð strax verðugur keppinautur Þjóðólfs og var mjög kröftugt blað í höndum Björns Jónssonar.

 

Umsjónarmaður vefjarins laumar því hér inn (báðar ættir hans í móðurkyn eru mjög eindregnar í Austur-Barðastrandarsýslu, bæði uppi á landi og ekki síður í Breiðafjarðareyjum), að hann er jafnskyldur þeim séra Matthíasi og Birni Jónssyni báðum eða að öðrum og fimmta. En það eru víst aðrir sálmar!

 

Séra Ólafur E. Johnsen var bróðir Ingibjargar Einarsdóttur, eiginkonu Jóns forseta. Faðir þeirra hét Einar Jónsson en Ólafur ritaði nafn sitt með framangreindum hætti að sið þeirra tíma. Hæg eru hér heimatökin að nefna annað dæmi um slíkt. Faðir Jóns Thoroddsens frá Reykhólum (1818-1868), ljóðskálds og skáldsagnahöfundar og sýslumanns, var Þórður Þóroddsson bóndi og beykir á Reykhólum. Frá Jóni skáldi er Thoroddsen-ættin komin.

 

Kennimaðurinn Ólafur E. Johnsen (1809-1885), sem þessi frétt snýst um, lauk guðfræðiprófi frá Hafnarháskóla árið 1837. Sama ár varð hann prestur á Breiðabólstað á Skógarströnd og gegndi þar embætti í þrjú ár eða þangað til hann tók við prestsskap á Stað á Reykjanesi í Reykhólasveit. Þar þjónaði hann síðan í 44 ár og var jafnframt prófastur í Barðastrandarprófastsdæmi í tæpa tvo áratugi. Hann var fulltrúi Barðstrendinga á Þjóðfundinum 1851. Ólafur Einarsson Johnsen andaðist vorið eftir að heiðurssamsæti það var haldið sem hér greindi frá.

 

*) Riddari Dannebrogsorðunnar, riddari af Dannebrog.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29