26. júní 2011 |
Á Vaðalfjöllum á sjálfa Jónsmessunótt
Fimmtán manns fóru í miðnæturgöngu á Vaðalfjöll í Reykhólasveit á Jónsmessunni, þrettán Íslendingar og tveir eldri borgarar frá Danmörku. Hist var við Bjarkalund laust fyrir klukkan ellefu og mannskapnum ekið áleiðis upp eftir vegarslóðanum. Svo var gengið síðasta spölinn og alla leið upp á hnjúk og kvittað í gestabókina sem þar er. Veðrið var mjög gott og fólkið naut göngunnar enda útsýnið ekki af verri endanum. Mismunandi sögum fer af því til hversu margra sýslna sést af Vaðalfjöllum, sumir segja fimm, aðrir segja níu eða jafnvel fleiri.
Þetta var ein af sjö gönguferðum í Reykhólahreppi (auk þess var ein hjólreiðaferð) dagana 23.-26. júní eða frá fimmtudegi til sunnudags undir samheitinu Gengið um sveit.