Tenglar

14. júní 2016 |

Á allt að vera ókeypis úti á landi?

Af hverju finnst mörgum það ekki vera neitt tiltökumál að borga nokkra hundraðkalla fyrir að leggja bílnum sínum í miðbænum á meðan skotist er í búðir eða snætt á veitingastað en arga svo og veina af vandlætingu ef svo mikið sem imprað er á því að rukka fimmtíukall fyrir að leggja á bílastæði við heimsþekkt náttúruundur úti á landi, sem fólk úr fjarlægum heimsálfum kemur sérstaklega hingað til lands til að sjá?

 

Þannig spyr Anna Lilja Þórisdóttir blaðamaður í pistli í leiðaraopnu Morgunblaðsins á föstudaginn. Og hún heldur áfram:

 

Eins og allt eigi að vera ókeypis um leið og komið er austur fyrir Elliðaárnar en í fínu lagi sé að taka gjald fyrir hitt og þetta á höfuðborgarsvæðinu.

 

Gistináttagjald, ferðamannaskattur, farþegagjöld eða náttúrupassi – hvaða orð sem við notum – inntakið er að koma á einhvers konar gjaldtöku á ferðamannastöðum þannig að hægt sé að vinna betur að uppbyggingu þeirra. Ýmsir möguleikar hafa verið ræddir fram og til baka, lítið hefur verið um niðurstöður eða aðgerðir og þrátt fyrir að í vor hafi verið ákveðið að veita 647 milljónir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar á nokkrum vinsælum ferðamannastöðum er þessi umræða hvergi nærri til lykta leidd og enn berast fréttir af klósettleysi á ferðamannastöðum og skorti á aðstöðu. Svo því sé til haga haldið kemur ráðstöfunarfé þessa framkvæmdasjóðs úr ríkissjóði, sem hlutfall af gistináttaskatti sem allir gististaðir greiða.

 

Nú hefur undirrituð enga sérstaka skoðun á gjaldtöku á ferðamannastöðum eða annars staðar og er sér þess líka meðvitandi að koma erlendra ferðamanna skilar milljörðum í þjóðarbúið. Fleiri milljarða er að vænta í ár, því búist er við að 1,5 milljónir erlendra ferðamanna sæki landið heim í ár, í síðasta mánuði komu hingað 36,5% fleiri ferðamenn en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt tölum Ferðamálastofu, og hagfræðideild Landsbankans spáir því að þeir verði 2,2 milljónir árið 2018. Sumsé eftir tvö ár.

 

Ef einhver hefur tök á að kaupa sér flugmiða til að koma til Íslands, þá hlýtur sá hinn sami að geta borgað fyrir að leggja bíl. Eða fyrir að ganga örna sinna á salerni. Eða fyrir að nota þjónustuaðstöðu sem hefur kostað bæði fé og fyrirhöfn að koma upp. Kannski er svolítið einfalt að setja hlutina fram svona, en það er búið að flækja þessa umræðu aftur á bak og áfram, án nokkurrar niðurstöðu.

 

Stundum hefur umræðan snúist um að gjaldtaka, hversu lítilfjörleg sem hún kunni að vera, fæli ferðamenn frá. Að það sé hreinlega dónalegt að hér á landi yrði sami háttur hafður á og víðast hvar annars staðar; sem er að fólk greiði fyrir þá þjónustu sem það notar og nýtur. Heldur einhver virkilega að útlendingarnir sem sækja okkur heim myndu móðgast heiftarlega í stórum stíl, snúa upp á sig í fússi og rjúka til síns heima þó þeir þyrftu að borga fyrir að fara á klósettið? Ég held ekki.

 

– Pistillinn er birtur hér með leyfi Önnu Lilju.

 

Athugasemdir

Jóhann Moràvek, fimmtudagur 16 jn kl: 22:31

Sammàla hverju orði.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30