Á „dauðalista“ Íslandspósts
„Þegar nú Íslandspóstur ákveður upp á sitt eindæmi að fækka póstferðum, skilja póstinn eftir úti við þjóðveg langt frá bæjum sem áður var keyrður heim rétt eins og í stórþéttbýlinu eða loka einu póstafgreiðslunum í heilum byggðarlögum, þá er hann að setja þær byggðir á „dauðalista" sinn: Það sé ekki arðbært að þjónusta þær þó svo í lögum sé skýrt kveðið á um að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar gildi í póstþjónustu landsmanna", segir Jón Bjarnason þingmaður Norðvesturkjördæmis.
„Fyrir Kópavogsbúann Guðmund getur það virst einföld aðgerð að loka póstafgreiðslu og skera niður póstferðir í heilum byggðarlögum og segja starfsmönnum upp. En með því er ekki aðeins verið að skera niður þjónustuna og skerða samkeppnishæfni búsetunnar heldur er verið gefa skýr skilaboð um að íbúarnir séu annars og þriðja flokks: Guðmundur í Kópavogi sé þjóðinni miklu mikilvægari og arðbærari en ekkjan í Reykhólasveit; það sé rétt og eðlilegt að mismuna fólkinu í landinu. Þar skilur á milli okkar Guðmundar."
Sjá Sjónarmið > Guðmundur í Kópavogi og ekkjan í Reykhólasveit í valmyndinni hér vinstra megin á síðunni.