Tenglar

25. desember 2015 |

„Á fornum Reykjahólum“

Séra Þórarinn Þór.
Séra Þórarinn Þór.
1 af 5

Séra Þórarinn Þór var prestur á Reykhólum í liðlega tvo áratugi. Hann lauk guðfræðiprófi 1948 og vígðist það ár til Reykhólaprestakalls og þjónaði því brauði til 1969. Þá fluttist hann til Patreksfjarðar og var þar sóknarprestur fram til ársins 1989, að hann lét af embætti vegna heilsubrests. Sr. Þórarinn var prófastur Barðastrandarprófastsdæmis frá 1960. Hér fyrir neðan er samantekt sem hann skrifaði og birtist í jólablaði Vesturlands árið 1973 eða fyrir liðugum fjórum áratugum, nokkrum árum eftir að hann fluttist frá Reykhólum til Patreksfjarðar.

 

Í sérlega þjálli og fróðlegri grein sinni kemur séra Þórarinn víða við í sögu kirkna og presta á Reykhólum og víðar í prestakallinu. Jafnframt víkur hann að líðandi stund í héraðinu og framtíð þess.

 

Hallgrímur Magnússon, organisti á Patreksfirði, ritaði á sínum tíma eins og margir fleiri minningargrein um séra Þórarin (Morgunblaðið 29. ágúst 1993) og segir þar meðal annars:

  • Eftirminnilegar eru ferðirnar með honum til messu, en oft var um langan veg að fara. Ók hann þá í Blazerjeppa sínum á ofsahraða um þrönga og holótta vegi utan í snarbröttum fjallshlíðum vestfirsku heiðanna meðan hann ræddi við farþega sína um daginn og veginn. Var það mörgum undrunarefni hvernig hann gat ekið bíl sínum með þessum hætti samtímis því að ráða krossgátu með hægri hendinni, drekka kók með þeirri vinstri og halda uppi líflegum samræðum við fólkið í aftursætinu. Samt hlekktist honum aldrei á í akstri.
  • Kímnigáfu hafði sr. Þórarinn í svo ríkum mæli að með eindæmum var. Var þessi gáfa svo samofin persónuleika hans að mér er næst að halda að hann hafi sjálfur aldrei beinlínis verið að reyna að vera skemmtilegur. Enn þann dag í dag lifa meðal manna hér á Vestfjörðum fjölmargar sögur af tilsvörum hans. Mér er minnisstæður stofnfundur Rauðakrossdeildar Patreksfjarðar þar sem hann var fundarstjóri. Var ótrúlegt hvernig hann gat gert þær langdregnu lagabætur, sem þar fóru fram, svo skemmtilegar að allur þingheimur lá í hláturskrampa mest allan fundartímann.
  • Það er mikið lán að fá tækifæri til að kynnast manni eins og sr. Þórarni Þór. Með söknuði hugsa ég til þess að fá ekki framar að setjast niður með honum, fá hjá honum kók og bolsíur og ræða um hvaðeina sem viðkemur mannlegu lífi og tilfinningum. 

 

Myndirnar sem hér fylgja eru ekki eftir frumeintökum heldur myndaðar upp úr blaðinu þar sem grein séra Þórarins birtist og bera þess merki.

 

 

 

Sr. Þórarinn Þór prófastur

 

„Á fornum Reykjahólum“

 

 

Reykhólar í Reykhólasveit hafa alla tíð verið höfuðból og þar setið stórbændur, ríkir héraðshöfðingjar og embættismenn. Þar fæddist 5. október 1818 Jón Thoroddsen skáld og sat seinna staðinn, sem æðsta veraldlegt yfirvald Barðastrandarsýslu, en sýslumaður Barðstrendinga var hann 1850-1861 og var þrjú fyrstu árin á Reykhólum, en eftir það í Haga á Barðaströnd.

 

Reykhólar koma víða við sögu. Í Sturlungu segir frá miklum mannvígum þar, er Kolbeinn ungi lét vega Tuma Sighvatsson, sem þá bjó þar, og marga menn aðra, en Kolbeinn reið þá um sveitir með flokk vígamanna og fóru þeir með ránum og ofbeldi, meiddu menn og drápu.

 

Það gæti verið skemmtilegt viðfangsefni að skrifa sögu Reykhóla frá fyrstu tíð, en það yrði mikið verk því staðurinn er hinn merkilegasti af eigin ágæti sínu, af fjölmörgum merkismönnum, sem þar hafa búið á liðnum öldum, og af sögum og sögnum um þá og ýmislegu atferli þeirra, og merkum viðburðum, sem geymzt hafa í minni manna og rituðu máli. Það verður þó að bíða, enda efni í stóra bók ef öllu væri saman safnað.

 

Í stuttri blaðagrein er fátt eitt hægt að nefna af því öllu. Ég ætla að reyna að segja ofurlítið frá kirkjuhaldi á Reykhólum enda ekki óviðeigandi í jólablaði.

 

Á Reykhólum mun kirkja hafa verið byggð snemma.

 

Frá því að Reykhólar koma við sögu fyrst eftir kristnitöku er getið um kirkju þar. Á gamalli bók stendur: „Á Reykjahólum var Bartólomeusarkirkja. Þar var snemma kirkja byggð, því Illugi Arason, bróðir Þorgils á Reykjahólum, var hirðmaður Ólafs konungs helga og hafði Illugi út við, sem kirkja og skáli á Reykjahólum var byggt af.“

 

Fyrsti presturinn, sem nafngreindur er að Reykhólum, var Ingimundur Einarsson, dáinn 1170, og kemur hann víða við Sturlungu öndverða. Faðir hans var Einar Arason goðorðsmaður að Reykhólum, Þorgilssonar, Arasonar, Mássonar. Ingimundur prestur var rausnarmaður hinn mesti, talinn skáld gott og mikill fræðimaður. Frá hans tíð má rekja nokkuð prestaröðina, því vitað er um nær alla þá, sem þjónað hafa Reykhólakirkju allt fram á þetta ár.

 

Séra Ingimundur var með vissu kominn til Reykhóla árið 1118. Síðan hafa um það bil 53 prestar*) þjónað við kirkjuna, og af þeim hópi er vitað um nöfn allra nema fjögurra. Frá 1118 til 1973 eru 855 ár og er því meðalþjónustutími þeirra u.þ.b. sextán og hálft ár, en annars var þjónustutíminn mjög mislangur, Ingimundur, sá fyrsti, var til dæmis a.m.k. 54 ár, en margir, sem síðar komu, voru aðeins eitt ár eða part úr ári, jafnvel.

 

Af þessum prestahópi þjónuðu 30 í kaþólskum sið (nafngreindir eru 26 þeirra); og eftir siðaskiptin er röðin nokkuð viss og óslitin á þeim 26 prestum, sem síðan hafa komið við sögu*).

 

Allir prestar eftir siðaskipti sátu að Stað, sem var hið lögboðna prestssetur í prestakallinu, þar til það var flutt að Reykhólum árið 1948. Fyrir siðaskipti sátu aftur á móti nokkrir af fyrstu prestunum á Reykhólum, þar á meðal Ingimundur Einarsson, sem fyrstur er nefndur, eins og áður segir. Aðrir nafngreindir prestar, sem með vissu sátu þar, eru sr. Tómas Hallgrímsson um miðja 15. öld, sr. Salómon Magnússon 1840-1500, sr. Koðran Jónsson 1512-1529 og sr. Jón Jónsson, skamman tíma á eftir sr. Koðran.

 

Sjálfsagt hafa fleiri prestar haft aðsetur á Reykhólum á fyrstu árunum og síðar í kaþólskum sið, sóknamörk og prestakallaskipan var allt með öðrum hætti en nú. Í fyrstu létu kristnir höfðingjar og stórbændur gera kirkjur á jörðum sínum og höfðu þá gjarnan, sumir hverjir, einkaprest og þjónuðu stundum fleiri en einn prestur við sömu kirkjuna. Síðar urðu venjur að reglum, sem kirkjuskipanin var síðan byggð á, biskupar settu kirkjum máldaga, þar sem nánar var kveðið á um not þeirra og réttarstöðu. Í máldaga, sem Árni biskup Þorláksson setti kirkjunni á Reykhólum segir, að þar skuli vera prestur og djákni, nema sá vilji heldur tvo presta, sem þar býr. Má með sanni segja að „þá var öldin önnur“. Tveir prestar þjónandi við eina kirkju á Reykhólum, – en nú á einn Reykhólaprestur að þjóna fimm kirkjum.

 

Þegar kirkjuskipan öll hafði fengið sæmilega fasta mótun á landinu og ákveðin sókna- og prestakallamörk, varð reyndin sú eftir siðaskipti a. m.k. í Austur-Barðastrandarsýslu, að fjórir prestar þjónuðu þar jafnmörgum prestaköllum. Austast var Garpsdalsprestakall með einni kirkjusókn, næst kom Staðarprestakall á Reykjanesi með tveim kirkjusóknum, þá Gufudalsprestakall með einni sókn, og loks Flateyjarprestakall með tveim kirkjusóknum.

 

Reykhólar voru í Staðarprestakalli á Reykjanesi og voru þar tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Reykhólasókn. Reykhólar voru því lengst af annexía frá Stað, en Staður á Reykjanesi er líka stórjörð með miklum hlunnindum og sátu prestar þar margir við mikla rausn. Þótti Staðarprestakall eftirsóknarvert – enda sátu þar margir merkir lærdóms- og kennimenn og nægir í því sambandi að nefna þrjá, sem voru þar hver á eftir öðrum meginpart seinustu aldar eða frá 1813 til 1884. Fyrstur þeirra var Páll Hjálmarsson, sem var seinasti skólameistari á Hólum í Hjaltadal og fékk Staðarprestakall þegar skólinn var lagður niður á Hólum. Næstur var tengdasonur hans séra Friðrik Jónsson prófastur, sem drukknaði í „Kóngavökum“ í Þorskafirði laust eftir 1840, og loks séra Ólafur E. Johnsen prófastur, sem var þar þeirra lengst eða í 44 ár samtals.

 

Marga fleiri merkisklerka mætti upp telja, sem þarna þjónuðu, en það verður ekki gert frekar hér, utan hvað þess skal getið til gamans, að sá sem nú þjónar Reykhólaprestakalli og situr á Reykhólum er einn mesti lærdóms- og virðingarmaður íslenzku kirkjunnar, sjálfur vígslubiskup Skálholtsstiftis herra Sigurður Pálsson.

 

Í Staðarprestakalli voru alla tíð áðurnefndar tvær kirkjusóknir og fram yfir seinustu aldamót, en þá var lagt niður Gufudalsprestakall og það gert að þriðju kirkjusókninni í Staðarprestakalli.

 

Á Reykhólum var bændakirkja frá fyrstu tíð en komst síðar í eigu ríkisins er það keypti Reykhóla um 1940.

 

Árið 1948 var ákveðið að flytja prestssetrið frá Stað að Reykhólum, og sama ár var byrjað að smíða íbúðarhús fyrir prestinn, sem síðan hefur setið á Reykhólum. Varð þá Reykhólakirkja höfuðkirkjan en Staður annexía og svo Gufudalur. Með lögum um skipun prestakalla og prófastsdæma 1952 var breytt um nafn á prestakallinu og heitir það síðan Reykhólaprestakall. Með sömu lögum var bætt við prestakallið enn einni kirkjusókn: Garpsdalssókn, sem tilheyrt hafði Staðarhólsþingaprestakalli í Dalaprófastsdæmi frá 1890 en hafði áður verið sérstakt prestakall. Þessi breyting kom til framkvæmda 1960 er prestaskipti urðu í Staðarhólsþingum.

 

Þann 1. júlí 1970 gengu enn í gildi ný lög um skipun prestakalla og prófastsdæma og var með þeim enn bætt við Reykhólaprestakall, í þetta sinn heilu prestakalli; Flateyjarprestakalli með tveim kirkjusóknum, Flateyjarsókn og Skálmarnesmúlasókn, og nær það yfir alla Austur-Barðastrandarsýslu og mun að öllum líkindum nú vera stærsta prestakall á öllu Íslandi að víðáttu og vegalengdum milli kirkna, auk þess sem ein kirkjusóknin er úti á miðjum Breiðafirði og verður ekki þjónað nema með sjóferðum. Það mun einnig vafalítið vera erfiðast yfirferðar til þjónustu allra prestakalla, einkum á vetrum.

 

Þar sem nú er eitt prestakall með fimm kirkjusóknum voru um seinustu aldamót fjögur prestaköll með sex kirkjusóknum. Nú þjónar þessum sóknum einn prestur, sem situr á Reykhólum, en áður voru hér fjórir prestar.

 

*

Það vekur strax athygli ferðamanns, sem kemur að Reykhólum nú, að uppi á hólnum standa tvær kirkjur, önnur gömul af timbri smíðuð, hin ný og mun stærri, gerð úr steinsteypu, með háum turni.

 

Gamla kirkjan er á þessu ári 116 ára gömul. Smíði hennar var lokið árið 1857 og hún vígð á því ári.

 

Í gömlum heimildum má sjá, að árið 1855 var á Reykhólum gömul torfkirkja. Átti hún í sjóði 494 dali og 65 skildinga, sem verið hefur töluverð upphæð, varla minna en hálf milljón króna miðað við núverandi gildi peninga. Í sömu heimild segir, að árið 1857 hafi kirkja verið byggð úr timbri, falleg og sterk, en ekki fullgerð og skuldi þá 798 dali. Tíu árum seinna, 1867, skuldar hún 1104 dali og enn 10 árum síðar, 1877, segir að hún hafi verið í góðu standi og skuldi 407 dali. Og árið 1887 eða 30 árum eftir að hún var byggð segir að hún sé í umsjá eiganda, í dágóðu standi og skuldi 70 dali.

 

Auðséð er, að allan þennan tíma er verið að berjast við skuldir vegna byggingarkostnaðarins og má m.a. af því sjá, að ekki hafa erfiðleikar verið minni þá við byggingarframkvæmdir sem þessar.

 

Þarna var vissulega í mikið ráðizt. Kirkjan hefur kostað um 1656 ríkisdali, sem gæti svarað til 3,3 milljón króna nú til dags og þó líklega meiru. Borið saman við torfkirkjurnar, sem áður voru víðast hvar og kostuðu tiltölulega lítið í smíði, hefur þessi 116 ára gamla kirkja kostað offjár, sem fyrirfram hefur verið vitað að ekki yrði hægt að greiða nema á löngum tíma.

 

Byrjað var á kirkjunni 1855 og henni að mestu lokið 1857, en ekki þó alveg, því að í skýrslu um kirkjur landsins árið 1857, sem birtist í riti Bókmenntafélagsins „Skýrslur um landshagi á Íslandi“ segir svo neðanmáls: ,,Í skýrslunni um Reykhólakirkju er þess getið, að kirkjusmíðið, þótt enn sé ekki fullgert þakið, hafi kostað 1656 ríkisdali og 68 skildinga.“ Er þess jafnframt getið að Reykhólakirkja hafi nýbyggð, árið 1857, verið talin eitt hið glæsilegasta hús á Vesturlandi. Ekki hefur með vissu verið hægt að finna hver var kirkjusmiðurinn, og ekki heldur hverjir réðu og létu byggja hana, og þó má nokkuð geta sér til um sumt.

 

Mestan veg og vanda af viðhaldi kirkjunnar og umsjón hennar á ofanverðri 19. öld hafði Bjarni Þórðarson, sem bjó stórbúi á Reykhólum um 30 ára skeið, sem frægt er orðið, og var þá eigandi kirkjunnar. En hann kom ekki til staðarins fyrr en 1869, um það bil sem skuldir hennar voru mestar.

 

En árið 1857 bjó á Reykhólum Páll Guðmundsson, hreppstjóri, og var hann kvæntur Jóhönnu Petronellu Þórðardóttur, alsystur Jóns Thoroddsens skálds. Dóttir þeirra var Þórey, kona Bjarna Þórðarsonar, sem áður var nefndur. – Á Grund, smábýli ofan við Reykhóla, undir fjallinu, bjó þá móðir Jóns og Jóhönnu, Þórey Gunnlaugsdóttir, en hún varð ekkja árið 1846. – Að því er bezt verður séð mun það vera hún, ásamt Boga Benediktssyni á Staðarfelli á Fellsströnd og Brynjólfi Benediktssyni í Flatey á Breiðafirði, sem áttu eða réðu a.m.k. þá mestu um Reykhólaeignirnar. Þessir tveir voru í senn mestir auðmenn og virðingarmenn við Breiðafjörð í þá daga. Og þegar eða ef þau þrjú hafa lagzt á eitt um þessa kirkjusmíð, þarf ekki að undra að kirkjan yrði myndarlegt hús. Enda segir um hana í kirkjuskýrslu árið 1860, að Reykhólakirkja sé fegursta kirkjan í öllu Barðastrandarprófastsdæmi.

 

Vitað er með vissu að altaristaflan, sem er hinn merkilegasti gripur, var gefin kirkjunni af Þóreyju, móður Jóns Thoroddsens skálds, en hann keypti hana úti í Danmörku fyrir peninga, sem afgangs urðu af því fé, sem Þórey sendi utan til að fá Jón keyptan úr herþjónustu.

 

Gamla kirkjan var vel smíðuð, sem marka má af því, að þrátt fyrir háan aldur hennar eru enn máttarviðir allir óskemmdir með öllu. Hún hefur ekkert viðhald fengið nú um áratugaskeið, enda ekki verið notuð til guðsþjónustuhalds sl. 10 ár.

 

Kirkjur landsins voru í fyrstu bændakirkjur. Það breyttist er tímar liðu og hafa þau mál þróazt þannig, að söfnuðirnir hafa yfirtekið flestar kirkjur af bændum, sem áttu þær, eða af ríkinu, sem eignaðist með árunum margar kirkjujarðir. En með því að sú kvöð hvíldi á kirkjueigendum, að viðhalda þeim í góðu standi og byggja nýjar þegar þær gömlu ónýttust, hefur ríkið leitazt við að koma þeim kirkjum, sem það eignaðist með kirkjujörðunum, yfir á söfnuðina, og losna svo undan kvöðinni, enda munu sárafáar kirkjur nú vera í eigu bænda og ríkis.

 

Á Reykjanesi í Barðastrandarsýslu voru lengst af tvær kirkjur, eins og áður segir, og báðar á sjálfu nesinu, þar sem voru 10 jarðir, en engin í innsveitinni og Þorskafirði, þar sem voru 19 jarðir. Sóknamörkin voru á miðju nesinu og áttu bæir þar, með og frá Miðjanesi, sókn að Stað ásamt bæjum öllum í Þorskafirði, alls 11 talsins, en að Reykhólum átti sókn fólk af bæjum á innanverðu nesinu frá Skerðingsstöðum og svo öll innsveitin, alls af 18 bæjum.

 

Þessi sóknaskipting var eðlileg meðan engir vegir voru þar í sóknum utan reiðgötur. En eftir að bílvegur kom að hverjum bæ urðu sóknamörkin að sama skapi óeðlileg, og ástæðulaust að hafa tvær sóknarkirkjur í sömu sveitinni sem svo stutt varð á milli, að nam um 10 mínútna akstri.

 

Þegar vegurinn var kominn um og eftir árið 1950 var sýnt að gera þurfti einhverjar breytingar á þessum málum, og var um tíma rætt um að leggja niður Staðarkirkju og reisa aðra í hennar stað inni í sveitinni. Báðar kirkjurnar voru þá ríkiskirkjur, nær aldargamlar og þó Staðarkirkja nokkru yngri. Voru þær að vonum farnar að hrörna nokkuð og þá um tvennt að velja, þegar rætt hafði verið til þrautar; annað hvort að reyna að halda við kirkjunum, og hafa sóknaskipun óbreytta, ellegar að sameina báðar kirkjusóknirnar í eina sókn, fá ríkið til að afhenda einum söfnuði báðar kirkjurnar með nægilega miklu álagi svo unnt væri að reisa eina veglega kirkju í Reykhólasveit, sem yrði þá ein kirkjusókn og kirkjan í ábyrgð og eigu safnaðarins. Síðari kosturinn var valinn, ekki sízt fyrir þá sök að fyrirsjáanlegur var mikill viðgerðarkostnaður á báðum gömlu kirkjunum, og sömuleiðis viðhaldskostnaður, sem fara mundi vaxandi með árunum, og margir óttuðust að erfitt mundi verða að fá til þess nægjanlegt fé frá ríkinu, sem var eigandinn, sökum ólæknandi fátæktar ríkiskassans og tregðu ríkisins til að eyða fé til kirkjubygginga og viðhalds á þeim.

 

Samningar um yfirtökuna gengu nokkuð greiðlega þegar búið var að sameina sóknirnar, og þann 8. september árið 1963 var nýja kirkjan á Reykhólum vígð með mikilli viðhöfn af biskupi landsins, og var þar samankomið mikið fjölmenni. Gengu 10 prestar hempuklæddir í prósessíu ásamt biskupi, sóknarnefnd og meðhjálpara úr gömlu kirkjunni með helga gripi hennar til hinnar nýju. Er sá dagur mjög eftirminnilegur öllum, sem þar voru viðstaddir.

 

Ekki var hróflað við gömlu kirkjunum þótt aflagðar væru báðar sem sóknarkirkjur. Réði þar mestu um, að menn báru þá von í brjósti að einhver leið mundi e.t.v. finnast til að gera við þær og varðveita þær þótt seinna yrði, því báðar eru þær merkilegar fyrir aldurs sakir og í byggingarlegu tilliti. Íbúum sóknarinnar nýju var það um megn því öll orkan fór í það að koma upp hinni nýju kirkju, samt sárnaði öllum að sjá þær gömlu í vaxandi afturför með hverju árinu sem leið.

 

Vonir manna um Staðarkirkju rættust þó innan fárra ára er hún var tekin á þjóðminjaskrá. Var þá gert við hana af kunnáttumönnum og henni komið í upprunalegt horf og er síðan í vörzlu þjóðminjavarðar.

 

En áhyggjur um örlög Reykhólakirkju fóru vaxandi því hún hélt áfram að hrörna, og hafa ýmsir kviðið því að þurfa loks að rífa hana eða óttast að óveður feykti henni um koll af ótraustum undirstöðum.

 

Níu ár liðu og ekkert gerðist. Vonir um björgun hennar tóku að dvína og raddir tóku að heyrast um, að ósæmilegt væri að láta hana halda áfram að grotna niður, auk þess sem hættan á að hún fyki fór vaxandi, og væri því réttast að láta hana hverfa.

 

Þá kom hreyfing á málið aftur. Menn gerðu sér ljóst byggingarsögulegt gildi hennar og viljinn til aðgerða var fyrir hendi, en fátækt og getuleysi hindraði framkvæmdir.

 

Nú er samt svo komið málum, að allar líkur eru á því, að takast megi að bjarga gömlu Reykhólakirkju, á annan veg, að vísu, en menn höfðu gert sér hugmyndir um, en samt þannig, að á betra verður ekki kosið ef af verður. Mun það bráðlega koma í ljós og hirði ég því ekki að segja frá því nánar, að svo komnu máli.

 

Nýja kirkjan á Reykhólum er mikið og vandað hús enda ætlað að standa um langa framtíð. Hún er hituð með hveravatni, en engin upphitun var í þeirri gömlu. Jarðhitalögn til hennar mistókst og var ekki aftur reynd. Af þeim sökum skemmdust sumir af gripum hennar. Mikið og vandað orgel sem henni var gefið ónýttist, og hin merka altaristafla var orðin stórskemmd.

 

Á 10 ára vígsluafmæli nýju kirkjunnar hinn 8. sept. sl. var haldin mikil vígsluafmælishátíð. Kom þar prófessor Gunnar Thoroddsen, ásamt konu sinni og fylgdarliði. Hafði hann, og niðjar Jóns og Þóreyjar Thoroddsen, látið gera við gömlu altaristöfluna, sem Jón kom með frá Danmörku meira en 100 árum áður. Hafði prófessor Gunnar haft forgöngu um þetta mál og afhenti kirkjunni töfluna frábærlega vel viðgerða af kunnáttumönnum. Var henni komið fyrir á réttum stað í nýju kirkjunni og sómir sér þar mjög vel.

 

Hélt prófessorinn ræðu í hátíðamessulok eftir að altaristaflan hafði verið endurvígð í kirkjuathöfninni, sem var raunar biskupsmessa. Var gerður góður rómur að máli hans af þakklátum þiggjendum rausnargjafar þeirra ættmenna, en kirkjan var yfirfull af kirkjugestum á þessu 10 ára vígsluafmæli.

 

*

Það sem gerði Reykhóla frá fyrstu tíð að stórjörð og höfuðbóli voru miklir landkostir, einkum hlunnindin, sem voru mörg og gjöful. Í þessari gömlu vísu eru þau nefnd:

 

Söl, hrognkelsi, kræklingur,

hvönn, egg, reyr, dúnn, melur,

kál, ber, lundi, kolviður,

kofa, rjúpa, selur.

 

Það, sem athyglisverðast er við þessa vísu þykir mér vera, að ekki eru talin þau hlunnindin, sem mest er af og mikilverðust eru, en það er jarðhitinn. Mikill fjöldi hvera er þar um allt og undir, í jörðinni þrumar ótæmandi orka, sem bíður þess að verða beizluð og hagnýtt. Framsýnum mönnum hefur fyrir löngu verið ljóst, að jafnóðum og gildi hinna gömlu hlunninda sem nefnd eru í vísunni þverra, þeirra sem gerðu jörðina mikla og eftirsóknarverða á liðnum öldum, vex að sama skapi gildi þeirra landgæða, sem ekki eru talin, jarðhitans, sem öll framtíð Reykhóla hlýtur að byggjast á og verður til að lyfta staðnum til ekki minni reisnar en hún áður var mest.

 

Það er eiginlega furðulegt um að hugsa, að allt framundir miðja þessa öld voru einu not jarðhitans þau, að í hverunum var soðinn matur og hverabrauð. Þarna hafa vatnsmiklir lækir af heitu vatni runnið endalaust ár og síð til sjávar án nokkurs gagns. Það var ekki fyrr en eftir 1930, að farið var að nota hverahitann til að hita íbúðarhús. – Nú er hins vegar að verða á mikil breyting í þessum efnum.

 

Önnur mikilsverð hlunnindi, sem ekki eru nefnd í vísunni, þang og þari, sem mjög mikið er af í sjónum, verða ásamt jarðhitanum grundvöllur að atvinnulegri endurreisn og uppbyggingu staðarins sjálfs og sveitanna þar í kring. Verða þá Reykhólar sú miðstöð héraðsins í verklegu og menningarlegu tilliti, sem mun gjörbreyta lífsháttum og lífskjörum íbúa þar vestur í sveitum, sem hafa átt í vök að verjast undanfarandi ár með lægstar meðaltekjur á öllu landinu.

 

Nú er þegar byrjað á framkvæmdum til undirbúnings þangvinnslu, sem veita mun mörgum atvinnu. Nýtt og myndarlegt skólahús er í smíðum og þegar lokið við stóran áfanga í þeirri framkvæmd. Tilraunastöð landbúnaðarins, ein af fjórum á landinu, hefur verið þar síðan 1946 og hafa þar veitt forstöðu sem tilraunastjórar tveir menn hvor eftir annan, duglegir og framsýnir hugsjóna- og atorkumenn.

 

Mikið af landi jarðarinnar hefur verið ræst fram og ræktað, og margt fleira mætti nefna, sem bendir til að sókn er hafin til bjartari og betri tíma fyrir það góða fólk og atorkusama, sem þarna hefur þraukað og barizt við erfið lífskjör þegar aðrir flýðu af hólmi. Það á vissulega skilið að geta nú horft fram til vaxandi velmegunar og upphafningar mannlífs þar, til fyrri vegs og sæmdar. En það er vitað, að við norðanverðan Breiðafjörð var fyrr á árum andleg og veraldleg reisn, sem jafnaðist á við það, sem bezt gerðist annars staðar á landi hér og í sumum greinum höfðu þeir forustu í menningarmálum eins og t.d. bókasafnið í Flatey og Kollabúðafundirnir bera vitni um.

 

Kirkjan er ný og reisuleg þar sem hún stendur efst uppi á hólnum og gnæfir yfir mannlífið allt um kring og bendir með háum turni sínum til himins, eins og til að minna á himininn og þann sem þar býr, svo ekki gleymist að vegsama hann, þakka honum og tilbiðja hann í þeirri velsældartíð, sem allir, sem staðnum unna, vænta nú að sé framundan og fari sívaxandi.

 

Fari svo, sem nú eru horfur á í verklegum og veraldlegum efnum, og fólkið, sem þar mun lifa og starfa gleymir ekki táknmáli kirkjuturnsins, mun á Reykhólum og í sveitunum þar í kring „verða gróandi þjóðlíf með þverrandi tár, sem þroskast á Guðsríkis braut“.

 

____________________________

 

*) Smávægilegt misræmi varðandi fjölda presta sem þjónað hafa við Reykhólakirkju frá öndverðu. Að líkindum er þar annað hvort um að ræða pennaglöp í handriti eða prentvillu. Úr þessu verður ekki skorið hér og nú.

 

Sjá einnig:

Hátíðarmessan á 50 ára vígsluafmæli Reykhólakirkju

Tvö kirkjufok og búferlaflutningur Reykhólakirkju

Myndir af kirkjunum tveimur á Reykhólum

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31