Á skammri stundu skipast veður í lofti
Uppfært. Götur á Reykhólum voru auðar um hádegi í dag en þá fór að snjóa í hæglætisveðri og um þrjúleytið var jafnfallinn snjór um 25 cm. Lengi fram eftir fimmta tímanum var vindurinn hæglátur en þegar klukkuna vantaði korter í fimm hvessti á andartaki og samkvæmt sjálfvirkum mæli Veðurstofunnar hefur vindurinn þá rokið upp í 26 metra á sekúndu. Mælitæki Veðurstofunnar eru á sléttlendinu góðan spöl neðan við Reykhóla og þar eru hviður ekki eins snarpar og ofar gerist þar sem sviptivindar eru harðari. Þessi læti í vindinum stóðu aðeins stutta stund.
Hvað sem verður.
Sjá meðfylgjandi skjáskot af vef Veðurstofunnar. Smellið á til að gera læsilegt. Þar sést að frá því fyrir hádegi hefur vindurinn verið á öllum áttum.
____________________________________________
Viðbót 26. jan. kl. 05.30:
Já, hvað sem verður, sagði þar, síðdegis í gær. Á mynd nr. 2 er annað skjáskot af vef Veðurstofunnar. Meðalvindur vel yfir 20 m/sek og mestu hviður yfir 30 og allt upp í 38 m/sek á hverjum klukkutíma í hálfan sólarhring samfleytt.