Áætlun gerð um nýtingu strandsvæða Vestfjarða
Þetta kemur fram á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þar segir enn fremur:
Ánægjulegt er fyrir samfélög á Vestfjörðum að áhugi er fyrir atvinnuuppbyggingu á þessu sviði, en um leið er mikilvægt að læra af reynslu annarra þjóða, svo sem Norðmanna og Færeyinga, hvernig best sé staðið að nýtingu strandsvæðisins. Umræða og ákvarðanir í gegnum áratugi hér á Íslandi varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið eru hér einnig umhugsunarefni. Telja verður mikilvægt að til staðar verði aðferðafræði sem byggir á forsendum laga, þannig að unnt sé að tryggja réttláta málsmeðferð og vonandi réttláta skiptingu á milli þeirra sem hagnýta svæðið í dag og eða stefna á hagnýtingu þess í nánustu framtíð. Hér er um umfangsmikið verkefni að ræða og sveitarfélög á Vestfjörðum hafa sýnt frumkvæði í að koma því áfram.