„Ábyrgðarhluti að reyna ekki til þrautar“
Vegagerðin hyggst reyna til þrautar að koma vegi um Teigsskóg við Þorskafjörð í gegnum skipulagsferli, en sem kunnugt er hafnaði Skipulagsstofnun veglínu þar vegna umhverfisáhrifa. Frá því var greint í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að Vegagerðin hafi óskað eftir nýju umhverfismati miðað við breytta veglínu. Skipulagsstofnun gaf hins vegar Vegagerðinni það óformlega svar í síðasta mánuði að það gengi ekki þar sem búið væri að hafna framkvæmdinni, jafnvel þótt ný tillaga væri um breytta veglínu.
Hreinn Haraldsson sagði í fréttinni í gær að Vegagerðin ætli að reyna allt til að fá nýja veglínu í umhverfismat. „Við erum ekki að tala um að fá framkvæmdaleyfi fyrir henni núna. Við erum að tala um að fá að skoða hana í umhverfismatsferli, ásamt ýmsum fleiri línum,“ sagði hann.
Formleg niðurstaða Skipulagsstofnunar er kæranleg. Við þykir blasa að Vegagerðin fái aftur neitun og segir Hreinn líklegt að Vegagerðin fari þá með málið til æðra stjórnvalds. „Það hefur nú ekki verið tekin ákvörðun um það. En það er ekkert ólíklegt að við reynum að fara þá leið til enda, því það eru ákveðnir úrskurðaraðilar þar sem geta tekið við slíkri niðurstöðu.“
Ástæðan fyrir því að Vegagerðin leggur slíka áherslu á veglagningu um Teigsskóg er tvíþætt, eftir því sem fram kom hjá vegamálastjóra. Annars vegar er það mat Vegagerðarinnar að vegur út norðanverðan Þorskafjörð og þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar sé öruggasta leiðin af þeim sem til greina hafa komið. Hins vegar sé það kostnaðarspursmál.
„Þessi lína er þremur milljörðum ódýrari heldur en næsti kostur sem kæmi þá upp á borðið. Og við teljum einfaldlega að það sé ábyrgðarhluti að reyna ekki til þrautar að koma því í gegn, því það er hægt að gera gífurlega mikið í samgöngumálum þarna og annars staðar fyrir þrjá milljarða,“ sagði Hreinn.
Nýi vegurinn myndi leysa af hólmi hina erfiðu vegi um Ódrjúgsháls og Hjallaháls og liggja allur á sléttlendi.
Hér má sjá og heyra frétt Kristjáns Más Unnarssonar fréttamanns á Stöð 2 í gærkvöldi með viðtalinu við Hrein Haraldsson vegamálastjóra.
Sjá einnig: Skipulagsstofnun neitar um nýtt umhverfismat
Eyvindur, rijudagur 08 jl kl: 12:53
Dásamlegt, við bíðum og bíðum og bíðum og ......