Tenglar

22. janúar 2016 |

Act Alone og Sauðfjársetur gætu hlotið Eyrarrósina

Sauðfjársetur á Ströndum: Frá hrútaþuklinu á síðasta sumri.
Sauðfjársetur á Ströndum: Frá hrútaþuklinu á síðasta sumri.
1 af 2

Tvö vestfirsk menningarverkefni eru meðal þeirra tíu sem eiga möguleika á því að hljóta Eyrarrósina 2016, leiklistarhátíðin Act Alone og Sauðfjársetur á Ströndum. Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Hún beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að þessum verðlaunum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík.

 

Leiklistarhátíðin Act Alone er haldin árlega á Vestfjörðum yfir sumartímann og fagnar í ár þrettán ára afmæli sínu. Frá upphafi hefur Elfar Logi Hannesson leikari og leikhússtjóri verið potturinn og pannan í hátíðinni. Hátíðin var fyrst haldin á Ísafirði árið 2004 en síðustu árin hefur hún verið haldin á Suðureyri. Sérstaða Act Alone felst í því að hún er meðal fárra leiklistarhátíða í heiminum sem helga sig einleiknum. Jafnframt hefur hún aukið aðgengi almennings að þessu sérstaka leikhúsformi með því að hafa frítt inn á allar sýningar. 

 

Sauðfjársetur á Ströndum hefur verið starfandi frá árinu 2002. Jafnan eru þar uppi fjórar sögu- eða listsýningar í einu. Þar er einnig kaffistofan Kaffi Kind og handverks- og minjagripabúð. Auk þessa stendur Sauðfjársetrið fyrir fjölda viðburða á ári hverju, þar sem markhópurinn er bæði heimamenn og ferðafólk. Á síðustu árum hefur þessi dagskrá þróast jafnt og þétt og viðburðum fjölgað.

 

Hin verkefnin átta í forvalinu eru Að - þáttaröð N4, Barokksmiðja Hólastiftis, Eldheimar, Ferskir vindar, Northern Wave, Reitir, Rúllandi snjóbolti og Verksmiðjan á Hjalteyri.

 

Tilkynnt verður 2. febrúar hvaða þrjú verkefni hljóta tilnefningu til verðlaunanna. Eitt þeirra hlýtur að lokum Eyrarrósina og auk þess 1.650.000 krónur og flugferðir innanlands frá Flugfélagi Íslands, en hin tvö hljóta peningaverðlaun og flugferðir frá Flugfélagi Íslands.

 

Sjá nánar hér á vef Byggðastofnunar

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31