Aðalskipulagstillagan komin á vefinn
Eins og fram kom hér á Reykhólavefnum var tillaga að aðalskipulagi Reykhólahrepps kynnt á borgarafundi í síðasta mánuði. Tillagan liggur frammi á skrifstofu hreppsins og geta þeir sem vilja gert við hana athugasemdir ef þeir sjá ástæðu til. Núna er tillagan líka komin hér inn á vefinn undir Stjórnsýsla > Aðalskipulag í valmyndinni hér til vinstri. Þar er um að ræða liðlega hundrað síðna rit á pdf-formi sem fljótlegt er að sækja. Þar er einnig að finna á pdf-formi um þrjátíu síðna samantekt um forsendur skipulagsins, sem lögð var fram á síðasta ári. Í þeirri samantekt er fjallað ítarlega um sveitarfélagið, gróðurfar, jarðfræði, dýralíf og náttúruminjar, svo og atvinnumál, opinbera þjónustu, samgöngumál og fleira.
Eftir samþykkt tillögunnar í hreppsnefnd tekur Skipulagsstofnun við og yfirfer hana áður en hún fer í endanlega auglýsingu, en þá er enn sex vikna frestur til að koma með ábendingar og leiðréttingar.