9. desember 2008 |
Aðventuskreyting á himni við Breiðafjörð
Myndin var tekin á elleftu stundu í morgun. Þá var enn ekki fullbjart af degi á Reykhólum við Breiðafjörð en í suðaustri var sólarglenna sem brá einkennilegum roða á skýin. Þegar kemur fram í desember hlaupa margir undir bagga með himintunglunum í baráttunni við langmyrkur skammdegisins. Jólaseríur af mannavöldum blikna þó í samanburði við aðventuskreytingar almættisins.