Æfðu sig á útihúsunum á Tindum á Skarðsströnd
Fyrir skömmu héldu slökkviliðsmenn úr Reykhólahreppi og Búðardal sameiginlega æfingu á eyðibýlinu Tindum á Skarðsströnd og kveiktu að þessu sinni í útihúsunum og sköpuðu jafnframt sem mestan reyk til að fást við. Í síðasta mánuði voru menn búnir að æfa sig rækilega á íbúðarhúsinu þar á sama hátt. Frá Slökkviliði Reykhólahrepps tóku fjórir menn þátt í æfingunni að þessu sinni, varaslökkviliðsstjórinn Bjarni Þór Bjarnason á Reykhólum, Bjarki Stefán Jónsson á Gróustöðum, Hafliði Ólafsson í Garpsdal og Sveinn Ragnarsson á Svarfhóli.
Æfingin reyndist hin gagnlegasta og gekk vel. Að sögn Guðmundar Ólafssonar slökkviliðsstjóra á Litlu-Grund er nauðsynlegt að halda æfingar af þessu tagi öðru hverju.
Myndirnar tók Bjarni Þór Bjarnason. Margar fleiri sem hann tók á æfingunni er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Slökkviliðsæfing apríl 2009 í valmyndinni vinstra megin á síðunni. Smellið á myndirnar til að stækka þær.