Tenglar

5. júlí 2009 |

Ættarmót í Gufudal - myndir og frásögn frá fyrri tíð

Ungviðið naut sín við Gufudalsvatn í blíðunni á sunnudagsmorguninn.
Ungviðið naut sín við Gufudalsvatn í blíðunni á sunnudagsmorguninn.
1 af 13
Nú er tími ættarmóta og gætir þess mjög í Reykhólahreppi. Bæði er þar á ferð fólk sem á rætur í héraðinu og aðrir sem nýta sér frábæra aðstöðu á Reykhólum og í Bjarkalundi eða bara þar sem ræturnar liggja. Þannig kom fjöldi fólks saman í Gufudal við Gufufjörð um síðustu helgi, dagana 27. og 28. júní, afkomendur Kristínar Petreu Sveinsdóttur og Bergsveins Finnssonar búenda í Gufudal á sinni tíð. Þar á meðal voru öll börn þeirra hjóna sem eru á lífi, sex talsins.

 

Elstur þeirra er Finnur, 89 ára, fæddur 28. maí 1920, en yngstur er Reynir, 70 ára, fæddur 30. nóvember 1938. Hin systkinin fjögur sem þarna voru saman komin eru Guðmunda, 86 ára, fædd 12. maí 1923, Kristinn, sem varð 82 ára daginn eftir ættarmótið, fæddur 29. júní 1927, Ólafur, 80 ára, fæddur 2. apríl 1929, og Rebekka, 74 ára, fædd 11. desember 1934.

 

Af systkinunum átta frá Gufudal eru látnar Ebba Aðalheiður, fædd 7. apríl 1921, látin 2006, og Sveinsína Pálína, fædd 10. apríl 1925, látin 1977.

 

Hér fylgja nokkrar myndir frá ættarmótinu í Gufudal. Smellið á myndirnar til að stækka. Þær er einnig að finna (að vísu í annarri röð) undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Gufudalur 2009 í valmyndinni hér vinstra megin á síðunni. Myndir: Inga og Donni.

 

Hér fer auk þess á eftir samantekt sem Kristinn Bergsveinsson á Reykhólum, einn af systkinunum frá Gufudal, flutti á ættarmótinu. Hann kveðst hafa tekið þetta saman til að minna yngri kynslóðirnar á þær breytingar sem orðið hafa á lífsháttum hérlendis á skömmum tíma og þær aðstæður sem forfeðurnir og formæðurnar ekki svo alls fyrir löngu bjuggu við.

 

Eindregið er óskað eftir myndum og frekari upplýsingum frá ættarsamkomum fólks með rætur í Reykhólahreppi hinum nýja til birtingar hér á vef Reykhólahrepps - fólks úr Múlahreppi, Flateyjarhreppi, Gufudalshreppi, Reykhólahreppi og Geiradalshreppi hinum gömlu, öðru nafni Austur-Barðastrandarsýslu.

 

__________________

 

 

Ávarp Kristins Bergsveinssonar á ættarmóti í Gufudal 2009
(að frátöldum almennum ávarpsorðum um inntak og efni)

 

Fyrst skal nefna Finn Arason og konu hans, Halldóru Gísladóttur, á Eyri í Kollafirði. Um hann segir Lúðvík Kristjánsson í bókinni Vestlendingar, bls. 106: „Finnur var djúpvitur og hugsaði mikið um þjóðmál og sá í þeim efnum lengra og glöggar en margur annar. Bréf hans til Jóns Sigurðssonar bera órækt vitni um það." Hann og fleiri stofnuðu fyrsta lestrarfélagið við hæfi alþýðu á Íslandi.

 

Meðal margra barna Finns á Eyri var Gísli Finnsson. Um hann vísa ég til Eylendu, bls. 91. Meðal tíu barna hans var Finnur Gíslason, afi okkar systkina. Um hann og Elínu ömmu er fjallað á bls. 86 í Eylendu.

 

Elín og Finnur voru bæði vinnuhjú í Hergilsey. Framtíð vinnufólks í endaða 19. öld var ekki glæsileg. Vinnumenn sendir í verið vor og haust eða á skútur frá Flatey. Húsbændurnir fengu hlutinn en vinnumennirnir á kaupi sem var oftast mjög skorið við nögl. Í Hergilsey var mikið um drykkjuskap og má rekja mannskæð sjóslys til þess. Vinnukonurnar hreinsuðu dún og unnu við dúnleitir og nýtingu annarra hlunninda, auk búverka og tóvinnu.

 

Finnur og Elín fluttu upp á Múlanes, fyrst að Ingunnarstöðum. Þau voru þar í húsmennsku, þ.e. réðu sér sjálf. Síðar fóru þau að Skálmarnesmúla. Þar byggðu þau sér lítinn bæ. Fengu þau land hjá bóndanum, líklega um hálfan hektara. Hlaðinn túngarður sést vel og tóftir bæjarins. Heimamenn í Múla nefna það enn Finnstún. Ég skrapp þangað fyrir stuttu að líta það augum þó ég hefði séð það áður. Þarna búa þau með sonunum tveimur, sem þar uxu úr grasi. Þeir voru Guðmundur, fæddur 1892, dáinn 1921, og Bergsveinn, fæddur 1894, dáinn 1952.

 

Á þessum árum bjuggu á Múla hjónin Jón Þórðarson, dáinn 1911, og Hólmfríður Ebenesersdóttir, dáin 1952. Þau áttu fjögur börn. Steinunn dóttir þeirra var kona Halldórs Jónssonar. Þau tóku við búskapnum af ekkjunni Hólmfríði árið 1914. Sama ár flytjast þau Finnur og Elín að Illugastöðum. Halldór og Steinunn flytja að Arngerðareyri árið 1920.

 

Múlaheimilið var stórt og fjölmennt og heyrði ég föður minn minnast áranna þar og fólksins af hlýju. Sérlega eins manns sem Óli bróðir heitir eftir, Ólafs Guðmundssonar. Hann var orðlagður ferðagarpur og tófuveiðimaður. Sótti meðöl á Bíldudal og Ísafjörð um hávetur þegar mikið lá við (skrif Bergsveins Skúlasonar).

 

Ég man vel þegar ég kom ungur með föður mínum að Arngerðareyri og við gistum hjá Steinunni og Halldóri, að hjá þeim var Hólmfríður, virðuleg eldri kona. Þurftu þau margt að ræða, faðir minn og hún.

 

Þar er nú til að taka, að komið er að næstu kynslóð. Faðir minn og móðir fara að búa í Gufudal árið 1920. Finnur og Elín flytja til þeirra en eru „sjálfra sín". Guðmundur líklega líka. Hann var á skútu frá Flatey þegar hann og tveir aðrir veikjast úti á sjó í spönsku veikinni sem þá fyrst kom vestur sumarið 1921. Þeir eru allir settir í herbergi í Vertshúsinu í Flatey. Guðmundur og annar deyja en sá sem svaf í rúmi með Guðmundi lifði. Það var Þórður Andrésson frá Þórisstöðum, síðar á Hjöllum.

 

Búskaparhættir í tíð föður míns voru þeir sömu og tíðkuðust á þeim tíma, öflun eldiviðar, hirðing búfjár, útbeit mikið notuð fyrir ær og hross. Féð rekið til beitar alltaf þegar gaf. Gufudalur átti beitarítök í Múlanum og Kirkjuhjöllum. Tún var lítið, fóðraði 2-3 kýr, og heyskapur mikið tekinn á engjunum; sjávarhólmum og blautum mýrunum, svo allt þurfti að flytja á þurrkvöll, bæði á hestum og hestvagni. Kaupafólk var fengið um heyskapinn en minna var um það þegar við systkinin uxum úr grasi.

 

Fólk lifði á því sem landið og sjórinn gáfu. Mataræði var að sumri harðfiskur, þrumari (pottbrauð), grjónagrautur. Að vetri mikill súrmatur, saltkjöt og saltfiskur. Og ekki má gleyma silungnum sem var stanslítið frá vori til hausts. Fært var frá 20-30 ám og var kindaskyrið sælgæti. Því var hætt um 1937.

 

Skal nú sagt nokkuð frá því hvað þurfti að leggja á sig til aðdrátta.

 

Það er komið haust. Slátrun lokið á Grónesi. Óskar Níelsson í Svefneyjum á mótorbátnum Felix, opinni trillu, kemur að sækja kjöt í tunnum að Grónesi. Faðir minn og ég förum með út í Flatey að gera innkaup fyrir veturinn. Komið við á Stað og hlaðinn árabátur tekinn aftan í trilluna. Veður var gott en vestangúlpur í Flateyjarsundinu.

 

Til Flateyjar komum við í myrkri um kveldið. Faðir minn verslaði við Boga Guðmundsson, sem þá rak verslun í Flatey. Við gistum í Vertshúsinu sem Bogi rak þá. Morguninn eftir voru vörur teknar í bátinn, meðal annars búnt af þakjárni sem dugði á 38 kinda hús. Var lagt af stað í land um hádegið.

 

Farið var Bæjarsund í Látur. Vélin í bátnum fór að hökta, svo stoppa varð í Látrum. Við faðir minn gengum til bæjar hjá Valdimar bónda og fengum mat og gistingu um nóttina. Valdimar var bátasmiður og gerði við vélina um kvöldið. Ólafur í Látrum var þar í heimili hjá syni sínum. Ræddust þeir við lengi kvelds, faðir minn og hann. Einar Sveinsson var þá í Látrum við smíðar. Gaf hann mér skákborð með taflmönnum, smíðað af honum. Hann var sonur Maríu, systur mömmu.

 

Morguninn eftir gaf til lands að Grónesi. Vörur teknar þar á land, mest 50 kg pokar af matvöru og fleiru. Bundið í bagga, hengt á klakk á hestana og þannig flutt heim.

 

Þessi ferð er sennilega farin árið 1937, á kreppuárunum. Þá þurfti virkilega að spara. Engin opinber aðstoð í boði. Því var það, að stundum dugði matarforðinn ekki allan veturinn.

 

Segir nú af ferð föður míns í Króksfjarðarnes, líklega 1939, skömmu fyrir páska.

 

Eftir að hafa skaflajárnað hestana daginn áður hélt hann af stað snemma dags og fór í einum áfanga í Króksfjarðarnes í þokkalegu veðri. Óli, Pálína og ég vorum í farskóla á Hofsstöðum. Þegar kom fram á morguninn daginn sem faðir okkar var á heimleið mokaði niður snjó í logni, 20-30 cm. Við vorum úti að leika okkur þegar Gústi á Hofsstöðum hvatti okkur til að hraða okkur heim. Stuttu eftir að heim var komið gerði glórulausa stórhríð af norðaustri. Finnur bróðir okkar sá um hirðingu á fénu og var búinn að hýsa það áður en veðrið skall á.

 

Föður mínum gekk ferðin vel og kom að Hjöllum upp úr hádegi og stansaði aðeins hjá Þórði og Þóreyju. Hann var kominn upp á Hjallaháls þegar veðrið skall á. Tvo baggahestana rak hann á undan og héldu þeir götunni í fyrstu. En þegar færðin þyngdist fóru þeir af leið og hurfu í gljúfrið rétt ofan við þar sem leiðin liggur niður í Mýrarlandið.

 

Heima gekk allt sinn vanagang, farið í fjós, gefið og kýrnar mjólkaðar. Seint um kvöldið komu faðir minn og Jarpur, báðir fannbarðir og klökugir. Jarpur var settur í hús í fjósinu. Það var langt í hesthúsið og hlýrra var í fjósinu. Veðrið fór batnandi um kvöldið.

 

Morguninn eftir fór hann aftur af stað að Djúpadal og fékk þar menn með sér upp í hálsinn. Þá kom í ljós að hestarnir voru ómeiddir. Höfðu þeir tekið með sér snjóhengju og voru fastir í lausasnjó. Vel gekk að ná þeim upp. Baggarnir voru léttir eins og var í lengri vetrarferðum og varan að mestu óskemmd. Þó var ekki frítt við að sykurinn væri með keim af hrossasvita en notaðist þó í páskabaksturinn.

 

Eins og ég gat um áður þurfti að nýta allt sem hægt var, meðal annars fjallagrös. Þau voru notuð í grasate og grasamjólk og í slátur, bæði til bragðbætis og til að spara rúgmjölið.

 

Seint í september fór ég með föður mínum á grasafjall. Farið var upp veg á Gufudalsháls, þaðan norður í stefnu á Múladalstungur, yfir heiðina og stoppað við Húsadalsvatn. Þar var mikið af stórum og góðum grösum. Komið var undir myrkur þegar við hættum að tína. Væta var og þoka á fjöllum. Sprett var af hestunum undir háu klettabelti í botni Húsadals. Í skúta þar komum við okkur fyrir og sváfum þar til birta tók af degi. Frekar kalt var því að um nóttina gekk til vestanáttar hvassviðris með éljum og gránaði. Um morguninn birti til. Búið var upp á baggahestinn og haldið af stað heimleiðis.

 

Á heimleiðinni fann faðir minn dilkær sem hann þekkti og náði að reka heimleiðis. Því var farið með hestana og kindurnar niður í Álftadalsbotn vestanverðan og smalaði hann dalinn með sér heim. Hundarnir voru duglegir við það.

 

Ekki veit ég til að farið hafi verið með hesta niður í dalinn þarna fyrr né síðar.

 

Heim komum við síðla dags. Kvenfólkið hreinsaði grösin og hakkaði í slátrið, sem var seinlegt verk og leiðinlegt. Það sem átti að geyma af grösunum var þurrkað. Soðin mjólk með fjallagrösum var mjög góð. Grasateið var dálítið rammt en talið gott við kvefi og öðrum krankleika.

 

Verslun bænda var að færast í Króksfjarðarnes og þá jafnframt slátrunin. Þær ferðir gátu verið erfiðar, allar ár óbrúaðar og vatnsmiklar í haustrigningum. Venjulega var lagt af stað að heiman um klukkan níu. Byrjað var að reka lömbin yfir ána.

 

Mér er minnisstæð ein ferð af mörgum. Það gekk þokkalega uns komið var upp í Hjallaháls. Þar mætti okkur norðanstormur, fyrst með slyddu, síðan skafrenningi. Mjög tafsamt var að pota lömbunum áfram á móti veðrinu uns halla tók niður. Í Þorskafirði var sami stormurinn en húðarrigning. Á Hjöllum bættist við fólk og fé. Urðum við að reka inn á eyrar og sundleggja fénu í Þorskafjarðarána. Það gekk vel en orðið var ansi dimmt þegar komið var í nátthagann á Kinnarstöðum og haldið til gistingar hjá Kinnarstaðasystrum, sem ávallt tóku okkur af sinni rómuðu gestrisni.

 

Oftast ráku saman bændur af tveimur bæjum. Ég man eftir Hallsteinsnesi, Barmi og Hjöllum. Síðari dagurinn var oftast auðveldari, kominn vegur og árnar auðveldari. Í Króksfjarðarnesi var alltaf gist hjá Bjarneyju og Jóni Ólafssyni. Þriðja daginn var fénu slátrað. Var mikil vinna að taka á móti slátrinu og aðskilja á útiborðum, þvo vambir og fleira. Gist var aðra nótt og haldið heim á fjórða degi. Hundar föður míns fóru ekki með en á fjórða degi mættu þeir oft á Hjallahálsi. Milli manns og hests og hunds hangir leyniþráður, segir máltækið.

 

Eftir að heim var komið var óhemjuvinna við að matreiða og koma fyrir öllum sláturmat á sem skemmstum tíma.

 

Þetta verður að duga um lífshætti og búskap í Gufudal. Ekki var alltaf unnið. Meðal annars fengum við systkinin að fara langar ferðir á héraðsmót ungmennafélaganna og fleira til skemmtunar. Lengst man ég að farið var vestur að Haga á Barðaströnd. Maður var manns gaman, þá eins og nú.

 

          - Samantekt Kristins Bergsveinssonar frá Gufudal í júní 2009.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30