Tenglar

7. janúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Ættmóðirin Sesselja Jónsdóttir úr Svefneyjum

Svefneyjar, séð til austurs. Reykjanesfjall þvert fyrir miðri mynd og þar eru Reykhólar hægra megin. Þorskafjörður opnast vinstra megin en hægra megin opnast inn til Berufjarðar, Króksfjarðar og Gilsfjarðar. Ljósm. © Mats Wibe Lund.
Svefneyjar, séð til austurs. Reykjanesfjall þvert fyrir miðri mynd og þar eru Reykhólar hægra megin. Þorskafjörður opnast vinstra megin en hægra megin opnast inn til Berufjarðar, Króksfjarðar og Gilsfjarðar. Ljósm. © Mats Wibe Lund.
1 af 3

Hér á vefnum birtist í gær samantekt um það fólk upprunnið á Vestfjörðum sem hæstum aldri hefur náð, að best er vitað. Þar á meðal eru fjórar konur upprunnar í Austur-Barðastrandarsýslu (núverandi Reykhólahreppi). Samantekt þessi hefur verið geysimikið lesin og þess vegna skal hér aukið við kafla um Sesselju Jónsdóttur, sem búsett var í Flatey og Skáleyjum. Sjálf varð hún ekki langlíf en ýmsir afkomendur hennar hafa orðið þeim mun langlífari.

 

Meðal barna Sesselju var María Magdalena Andrésdóttir, ein þessara fjögurra kvenna, og varð 106 ára. Sonardóttir Sesselju var Kristín Petrea Sveinsdóttir, önnur þessara fjögurra, sem einnig varð 106 ára og raunar dálitlu eldri en María Magdalena. Hin þriðja, Magðalena Lára Kristjánsdóttir, sem varð 103 ára, var einnig komin af Sesselju.

 

Hér fer á eftir kafli úr samantekt Jónasar Ragnarssonar ritstjóra um Sesselju í tímaritinu Heilbrigðismálum í september 2006. Á þeim liðlega sex árum sem síðan eru liðin hefur vel hugsanlega eitthvað markvert bæst við hvað aldur afkomenda Sesselju varðar.

 

  • Segja má að Sesselja Jónsdóttir, sem fædd var í Svefneyjum á Breiðafirði árið 1823, hafi átt miklu barnaláni að fagna, ef langlífi afkomenda hennar er mælikvarði á það.
  • Áður en Sesselja giftist átti hún einn son, Svein Pétursson, með Pétri Guðmundssyni, sem drukknaði ungur. Sveinn varð 91 árs og flest barna hans náðu háum aldri en þó ekkert eins háum og Kristín P. Sveinsdóttir sem var orðin 106 ára þegar hún lést haustið 2000. Bróðurdóttir Kristínar, Magðalena Lára Kristjánsdóttir, lést vorið 2001, rúmlega 103 ára.
  • Sesselja giftist Andrési Andréssyni árið 1852 og orti Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld brúðkaupsvísur til þeirra. Andrés drukknaði um þrítugt en þau Sesselja eignuðust sjö börn sem komust til fullorðinsára. Hæstum aldri systkinanna náði María M. Andrésdóttir, sem varð 106 ára. Meðal barna Maríu var Ingibjörg Daðadóttir, sem varð 103 ára, og Guðmundur Daðason, sem varð 105 ára.
  • Með síðari manni sínum, Sveinbirni Magnússyni, átti Sesselja tvö börn. Annað þeirra, María Katrín Sveinbjarnardóttir Beck, varð 100 ára.
  • Sjálf varð Sesselja, sem bjó í Flatey og Skáleyjum, ekki nema fimmtug. Dánarmeinið var „bólguveiki“. Sagt var að hún hefði verið fríð kona sýnum, há vexti, búsýslukona góð og vel gefin. Ein systir hennar var Sigríður Jónsdóttir, amma Sveins Björnssonar forseta Íslands.

 

Viðbót - athugasemd 9. janúar 2013:

  • Guðlaug Guðmundsdóttir á Tindum í Geiradal hafði samband við umsjónarmann vefjarins og sagði að hér bæri ekki saman um fæðingarstað Sesselju Jónsdóttur við það sem Sveinbjörn Pétur Guðmundsson (1880-1955) fræðimaður og kennari úr Breiðafjarðareyjum hefur ritað. Í handriti Sveinbjarnar segir, að Sesselja sé fædd í Hvallátrum á Breiðafirði. Jón Ólafsson faðir hennar hafi hins vegar verið fæddur í Svefneyjum.

 

Önnur viðbót - athugasemd 12. janúar 2013 (varðandi fæðingarstað Sesselju Jónsdóttur og fleira): 

  • Í ritinu Eylendu segir meðal annars á þessa leið um foreldra Sesselju, hjónin Jón Ólafsson og Steinunni Guðbrandsdóttur, búendur í Svefneyjum og síðan í Hvallátrum á Breiðafirði:
  • „... þau Steinunn munu hafa byrjað búskap á parti í Svefneyjum strax eftir að þau giftust. [...] Árið 1824 fluttust þau í Hvallátur og bjuggu þar síðan góðu og gagnsömu búi meðan Jón lifði.“
  • Fram kemur í Eylendu, að Jón og Steinunn hafi gengið í hjónaband árið 1817. Samkvæmt ofanritaðri tilvitnun hafa þau flust úr Svefneyjum í Hvallátur árið eftir fæðingu Sesselju.
  • Jón Ólafsson varð ekki langlífur. Hann lést árið 1834, hálffimmtugur að aldri. Steinunn bjó áfram í Hvallátrum og varð nokkrum árum síðar seinni kona Magnúsar Einarssonar í Skáleyjum. Hún andaðist árið 1862, rétt um hálfsjötug að aldri.
  • Jónas Ragnarsson, sem vitnað var til hér að ofan, hefur í tilefni af þessari umræðu sent vefnum mynd úr prestsþjónustubók þar sem inn eru færðar upplýsingar um fæðingu og skírn Sesselju Jónsdóttur. Í texta sem fylgir myndinni segir Jónas: „Þetta er úr prestsþjónustubókinni en ekki útilokað að það sé fært inn síðar.“ Sjá mynd nr. 3 sem hér hefur nú verið bætt inn.
  • Að öllu samantöldu má það virðast fremur líklegt, að hjá Sveinbirni P. Guðmundssyni (sjá Viðbót - athugasemd hér næst fyrir ofan) sé um að ræða pennaglöp, misminni eða rangar upplýsingar varðandi fæðingarstað Sesselju Jónsdóttur. Í því sambandi skal minnt á það sem fram kemur hér fyrir ofan skv. Eylendu, að foreldrar hennar hafi flust úr Svefneyjum í Hvallátur árið eftir fæðingu hennar, sem og færsluna í prestsþjónustubókinni.
  • Til gamans má geta þess, að dr. Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, er afkomandi títtnefnds Sveinbjarnar Péturs Guðmundssonar fræðimanns í breiðfirskri sögu. Sjálfum sér til gamans leyfir umsjónarmaður þessa vefjar sér að nefna, að Sveinbjörn var ömmubróðir hans. Báðir eru þeir Sveinbjörn og hann komnir af Maríu Jónsdóttur, systur Sesselju.
  • Upphaflega var fyrirsögnin á þessari frétt Ættmóðirin Sesselja Jónsdóttir úr Svefneyjum. Eftir að ábending Guðlaugar á Tindum barst um handrit Sveinbjarnar (kennara hennar á sínum tíma) var fyrirsögninni breytt í Ættmóðirin breiðfirska Sesselja Jónsdóttir. Við þá breytingu duttu út tengslin við Facebook og þar með það sem fram kom fyrir neðan, að tíu manns hefðu lýst þar ánægju sinni með skrifin („lækað“ eins og oft er sagt á fögru máli). Í ljósi þess sem fram kemur í þessari löngu viðbót hefur fyrirsögninni nú verið breytt aftur til fyrra horfs. Helsta ástæða þess er sú, að þar með eru tengslin við Facebook komin á ný en ekki að orðalagið eftir fyrri breytingu geti talist slæmt með nokkrum hætti.

- Hlynur Þór Magnússon.

 

Viðauki

 

Árið 1950 birtist í tímaritinu Hlín, ársriti íslenskra kvenna, grein um Maríu Magdalenu Andrésdóttur, sem þá var orðin liðlega níræð. Höfundurinn var tengdasonur hennar, Ólafur Jónsson frá Elliðaey. Þar segir meðal annars, einkum hvað varðar Maríu sjálfa og Sesselju móður hennar (sjá einnig mynd nr. 2):

  • Það er stundum sagt í gamni um hina innfæddu Reykvíkinga, að þeir sjeu af Vesturbæjaraðlinum. - María er af Vestureyjaaðlinum. - Í Vestureyjum Breiðafjarðar bjó um miðja 19. öld gagnmerkt fólk. Var hinu líkamlega atgervi þeirra viðbrugðið, enda svalt það aldrei í hinum kunnu Móðuharðindum.
  • María er fædd í Flatey á Maríu-messudag-Magðalenu 1859, og heitir hennar fulla nafni. Foreldrar hennar voru Andrjes Andrjesson og Sesselja Jónsdóttir. (Giftust þau í Flatey, 15. des. 1852. Sátu þá veislu alt stórmenni Flateyjar, og Jón sýslumaður Thoroddsen orti brúðkaupsljóð). Faðir Andrjesar var ráðsmaður hjá Ólafi prófasti Sivertsen, en móðir hans, Guðrún Einarsdóttir, systir Þóru móður Matthíasar Jochumssonar og síra Guðmundar Einarssonar. Fleiri voru þau systkin. Getur Matthías Guðrúnar í æfiminningum sínum sem sjerstaks valkvendis.
  • Móðir Maríu, Sesselja, var systir Sigríðar, móður Björns ráðherra. - Get jeg þessara stórmenna, til þess að þeir, er vilja rekja ættir þeirra Andrjesarsystra, geti betur sjeð framættir þeirra. Var Sesselja mikil kona að vallarsýn og gervileg, hög í höndum, en jafnframt víkingur til hinna grófari verka, sjómensku sem annara, að meðal karlmenn þurftu ei við hana að keppa í störfum. - Hagorð var hún og taldi dætur sínar þannig:

Jóhanna og Gunna - gulls fögur nunna,

Ólína og Dísa - drósum skal lýsa.

María og Steina - má þeim ei leyna.

Sjöunda Andrjesa - satt skal jeg lesa.

María Katrín mæta - má henni við bæta.

Þennan flokkinn fljóða - faðirinn annist þjóða.

  • Mann sinn, Andrjes, missti Sesselja 1860, er „Snarfari“ fórst. - Um það kvað Gísli Konráðsson:

Saknar margur sárt að von

sje Guð þeirra vörnin,

Andrjes mætan Andrjesson

ekkjan þreyr og börnin.

  • Seinna giftist Sesselja Sveinbirni Magnússyni í Skáleyjum, föður síra Jóhanns á Hólmum og Sigurðar á Hvilft. - Áttu þau tvö börn: Guðmund og Maríu Katrínu, húsfreyju að Sómastöðum við Reyðarfjörð.
  • [- - -]
  • Á níræðisafmæli hennar [Maríu Andrésdóttur] í fyrra mintist jeg hennar þannig í „Morgunblaðinu“: „Hafi þær systur Maríu, Herdís og Ólína, verið andlegu atgervi búnar, hefur hún síst orðið afskipt því líkamlega: Fríðleikskona, glæsileg að vallarsýn, glaðlegt viðmót, hagleikur í ríkum mæli, vinnuafköst með einsdæmum. - Ekkert verk fer henni illa úr hendi. - Hún sameinar þann sjaldgæfa eiginleika: Mikinn vinnuhraða og frábæra vandvirkni.“
  • Atgervi sínu heldur María fram í háa elli, bæði andlegu og líkamlegu. Gengur ennþá teinrjett um götur þessa bæjar vinum sínum til augnayndis.

 

 

Annar viðauki: Smáræði um Svefneyjar á Breiðafirði 

  • Svefneyjar eru innsti hluti svonefndra Inneyja á Breiðafirði, sem spanna auk þeirra Hvallátur, Skáleyjar og Sviðnur. Á stórstraumsfjöru er gengt um mestan hluta Svefneyjalanda. Flateyjarsundið milli Inneyja og Flateyjar er að mestu skerjalaust og opnast norður í flóann og út til hafs sunnan Flateyjar. Það er mjóst milli Flateyjar og Svefneyja og kallast þar Svefneyjasund.
  • Heimaeyja Svefneyja er í vesturjaðri þeirra og stærst Inneyja, litlu minni en Flatey. Hún er um einn og hálfur km á lengd og allt að hálfur km á breidd og skýlir hinum eyjunum með því að svæfa hafölduna að mestu. Helstu eyjar Svefneyjalanda eru Litla-Seley, Langey, Urðey, Grasey, Feginsbrekkur, Stóra-Seley, Flatey, Norðureyjar, Hrafnseyjar, Öxneyjar og Írlönd.

 

Fjórar konur úr héraðinu sem náð hafa 103 ára aldri

 

Athugasemdir

Valdimar Már Pétursson, sunnudagur 16 oktber kl: 15:43

Í fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2003 skrifaði ég greinina "Langlífir afkomendur" þ.e. fkomendur Sesselju. Þess má geta að Andrés Andréssson og Sveinbjörn Maagnússon voru systrasynir og báðar konur Sveinbjörns systur. Snarfari fórst 11. des. 1861.
María ólst upp hjá Guðmundi ömmubróður sínum en Katrín kona hans og Andrés voru uppeldissistkyn.

Kristbjörn Árnason, fimmtudagur 11 janar kl: 12:55

Bara til gamans.

Anna Kristín Björnsdóttir varð 96 ára, amma mín eins ég kallaði hana ævinlega en fósturmóðir föður míns Árna Þórðarsonar frá 1920. Hennar maður var Sveinbjörn Pétursson.

Amma var fermingarsystir Kristínar Petreu Sveinsdóttur í Gufudal. Þær voru alla tíð miklar vinkonur. Ég kynntist Kristínu nokkuð fyrir tilviljun er hún dvaldi hjá Rebekku Bergsvinsdóttur dóttur sinni í Mosfellssveit. En sonur hennar Finnur Bergsveinsson fæddur 1920 og pabbi voru miklir vinir. Finn hitti ég eldhressann í Breiðfirðingabúð á síðasta ári.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31