Ævintýraheimur Muggs í boði foreldrafélaganna
Nokkur stutt leikverk undir samheitinu Búkolla - Ævintýraheimur Muggs verða flutt í Félagsheimilinu á Hólmavík á mánudag kl. 11 í boði foreldrafélaganna í Reykhólahreppi og á Ströndum. „Ævintýraleg leiksýning fyrir krakka á öllum aldri,“ segir í kynningu. Hér eru gömlu góðu íslensku þjóðsögurnar og ævintýrin í aðalhlutverki og allir geta tekið þátt í þeim. Hér koma við sögu ævintýrin Búkolla, Sálin hans Jóns míns og síðast en ekki síst sjálf perlan Dimmalimm. Síðastnefnda ævintýrið er einmitt eftir Mugg sjálfan og vafalaust eitt vinsælasta ævintýri allra tíma hérlendis.
Höfundur sýningarinnar og leikari er Elfar Logi Hannesson frá Bíldudal (Kómedíuleikhúsið), leikmynd og leikbrúður annast fjöllistakonan Marsibil G. Kristjánsdóttir frá Þingeyri en tónlistin er í höndum Ísfirðingsins Guðmundar Hjaltasonar. Þau Elfar Logi og Marsibil hafa bæði hlotið útnefninguna Bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar.
Guðmundur Thorsteinsson frá Bíldudal, sem þekktari varð undir listamannsnafninu Muggur, var fjölhæfur teiknari og listmálari og myndskreytti margt íslenskra þjóðsagna og ævintýra. Líka samdi hann sjálfur ævintýri og myndskreytti þau. Auk annarrar listiðkunar Muggs má nefna, að hann lék eitt af aðalhlutverkunum í kvikmyndinni frægu, Sögu Borgarættarinnar.
Muggur átti djúpar ættarrætur í núverandi Reykhólahreppi, bæði í Breiðafjarðareyjum og uppi á meginlandinu. Þess má t.d. geta, að Ásthildur móðir hans og þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði voru systkinabörn. Skáldkonan Theodóra Thoroddsen var móðursystir hans. Skáldsysturnar Ólína og Herdís Andrésdætur úr Breiðafjarðareyjum voru náfrænkur hans.
Á sinni stuttu ævi dvaldist Muggur löngum erlendis og ferðaðist víða um lönd. Hann lést skömmu fyrir 35 ára afmælið sitt.