Tenglar

21. júlí 2016 |

Æviráðið dúó á Ögurballi

Þórunn og Halli í Ögri við Djúp.
Þórunn og Halli í Ögri við Djúp.

Dúóið góðkunna Þórunn og Halli heldur uppi fjörinu á balli á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum annað kvöld, föstudag. Þau eru mjög fjölhæf enda nauðsynlegt vegna gerólíkra verkefna. „Við spilum við öll möguleg tækifæri, svo sem á almennum dansleikjum, við brúðkaup og jarðarfarir, afmæli og aðrar athafnir sem þurfa á tónlist að halda, í hvaða formi og tónlistarstefnum sem er, allt frá gömlu dönsunum upp í þungarokk og allt þar á milli“, segir Halli, fullu nafni Jón Hallfreð Engilbertsson frá Tirðilmýri á Snæfjallaströnd, kennari og tölvuhönnuður á Ísafirði.

 

„Líka reynum við að uppfylla óskir um óskalög, sé þess nokkur kostur.“ Hann bætir því við að þau spili mikið á þorrablótum út um hvippinn og hvappinn. „Aðallega þó hvappinn.“

 

– Þið eruð fastur liður á Ögurballinu fræga ár hvert ...

 

„Jú, mikið rétt. Við höfum spilað á hverju Ögurballi frá 1999. Við erum æviráðin. Okkur var sagt fyrir langalöngu að við yrðum látin vita ef okkar framlags verði ekki óskað lengur. Við höfum líka spilað á Jónsmessuhátíð á Hofsósi undanfarin fimm eða sex ár, held ég, ekki æviráðin þar enn, en bókuð samt þar á næstu hátíð 2017.“

 

Af skiljanlegum ástæðum eru norðanverðir Vestfirðir helsti vettvangur dúósins Þórunnar og Halla.

 

„Iðulega erum við þó fengin til að spila miklu víðar, svo sem á höfuðborgarsvæðinu, og meðal annars höfum við verið fengin austur að Flúðum, í Borgarfjörð og Dali og Skagafjörð og til Noregs. Við förum yfirleitt þangað sem við erum pöntuð, hvar svo sem það er í heiminum!“

 

Á myndinni eru Þórunn og Halli í samkomuhúsinu gamla í Ögri við Ísafjarðardjúp, þar sem þau hafa spilað og sungið frá því fyrir aldamót og sér ekki fyrir endann á því.

 

Ballið með Þórunni og Halla á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum byrjar kl. 22 annað kvöld, föstudag. Þar verður 18 ára aldurstakmark og kostar 2.500 krónur inn. Hægt er að kaupa miða sem gildir líka á pöbbkvissið á sama stað fyrr um kvöldið á kr. 3.000.

 

Að öðru leyti er þétt dagskrá fyrir alla aldurshópa á Reykhóladögum á morgun, allt frá því klukkan tíu í fyrramálið. Sjá nánar hér.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31