Tenglar

21. febrúar 2020 | Sveinn Ragnarsson

Af febrúarveðrum fyrr og nú

Sólheimar, hurðin fauk úr dyrunum inn í þetta herbergi með karmi og öllu saman. Feb. 2020
Sólheimar, hurðin fauk úr dyrunum inn í þetta herbergi með karmi og öllu saman. Feb. 2020
1 af 9

Um daginn, fyrir um viku kom einn NA veðurhvellurinn. Þá brotnuðu rúður í húsum í Króksfjarðarnesi. Sólheimum sem eitt sinn var kaupfélagsstjórabústaður og Glaðheimum þar sem símstöðin var til húsa. Meðfylgjandi myndir eru frá Sævari Reynissyni.

 

Annars má segja að við í Reykhólasveitinni höfum sloppið tiltölulega vel við alvarleg foktjón í þessum rokum sem hafa verið í vetur. Járnplötur hafa fokið af útihúsum, til dæmis af skúr á Gillastöðum, hlöðu í Gufudal,  gluggi losnaði úr fjósinu á Miðjanesi og eflaust hefur eitthvað fleira farið af stað.

 

Í tengslum við gular og appelsínugular viðvaranir undanfarið, hefur gjarnan verið rifjað upp óveður sem gekk yfir landið í febrúarbyrjun fyrir liðlega hálfri öld, 1968. Þá urðu mannskæð sjóslys í Ísafjarðardjúpi þegar fórust bresku togararnir Ross Cleveland og Notts County, og vélbáturinn Heiðrún II frá Bolungarvík, ekki verður fjallað um þau hræðilegu slys hér, en þetta veður hafði viðkomu á Reykhólum.

 

Við höfum samtímaheimildir þar sem eru blaðagreinar úr Morgunblaðinu og Tímanum, frá Sveini á Miðhúsum og sr. Þórarni Þór. En líklega fáum við gleggsta mynd af þessum tíma með því að glugga í dagbók Lilju á Grund.

Synir hennar, Guðmundur og Unnsteinn gáfu góðfúslega leyfi til að birta kafla úr henni  og hér eru 6 daga færslur.

Þetta er nánast orðrétt úr dagbókinni með smá innskotum, en gefum Lilju orðið.  

 

Laugard. 3. feb. Norðaustan kaldi. Ég fór í búð.

 

Sunnud. 4. feb. Norðaustan fárviðri og snjókoma, frost um 10 stig. Veðrið byrjaði um kl. 5 í morgun.

Kl. 6 var Mávavatnsfjölskyldan að flýja húsið með börnin og komst við illan leik að Reykhólum. (Innsk. Það er um 135 m. leið) Grjóthríðin á húsið gellur á eins og fallbyssukúlur. Þetta varir allan sunnudaginn og fram á mánudag, þá fór að draga úr veðrinu. Allar rúður [brotnuðu] úr kaupfélaginu og kirkjunni og yfirleitt brotnuðu rúður í öllum húsum meira og  minna. Hér kom snjóflóð fyrir innan bæinn, náði niður að síma[línunni].

Skúrinn fauk að mestu. Bíll Binna fauk út í skurð hjá sléttu túni. Það var allt eftir þessu. Skúr á Höllustöðum fauk og fleira. Rafmagn slitnaði.

 

Mánud. 5. feb. Norðaustan rok, heldur að minnka hríðin þegar á daginn leið.

Jón Mark, Viðar, Páll Jóns og Erlingur komu hér, þeir voru að ná rafmagnslínunni af símanum. (Innskot, rafmagnslínan slitnaði í veðrinu og fauk yfir símalínuna) Hér er rafmagnslaust ennþá, Nesið búið að fá rafmagn.

 

Þriðjud. 6. feb. Norðaustan hvassviðri, lítið frost.

Það var verið að moka út snjó úr Mávavatni og búðinni. Grímur og Birgir komu til að gera við rafmagnið, það kom hér um kl. 6.

Erlingur kom, Samúel og Ingvar komu með póst til mín. Siggi Hreins, Birgir, Grímur komu allir í kaffi, Villi á Miðjanesi kom, Ingi Garðar, Jens og Hanna. Binni keyrði bílinn hingað heim eftir að hann kom á hjólin aftur og allt gekk vel.

 

Miðvikud. 7. feb. Norðaustan kaldi frost um 7 stig. Ég fór onað Reykhólum að hitta fólk og sjá skemmdir, sem ekki er hægt að lýsa.

 

Fimmtud. 8. feb. Hægviðri, lítið frost. Ég fór onað Reykhólum, var að vinna í búðinni með Dísu, Maju, Ólafi E. og Óla Sigurvins fram á kvöld, mikið að gera að raða upp og þurrka.“

Engar óþarfa málalengingar.

 

Um þær mundir sem þetta allt gengur á, var sá er þetta skrifar kominn á 10. ár og farinn að velta fyrir sér eiginleikum og meðhöndlun efnis af ýmsu tagi. Til dæmis að járnplötur, plast og asbestplötur –já! asbest- var hægt að gata auðveldlega með því að reka sýl í gegnum þær. Aftur á móti gekk verr með gler, það vildi ekki koma gat heldur brotnaði það bara.

Af þessum athugunum var sú ályktun dregin að ómögulegt væri að gata glerplötur nema þá helst með einhverjum græjum sem bara væru til fyrir sunnan, eða sennilega frekar í útlöndum.

 

Eftir að þetta veður var gengið yfir fór flest að ganga sinn vanagang og allir mættu í skólann. Þá var heimavist á Reykhólum, og skólinn var reyndar aðeins það sem er leikskólinn í dag, hitt var allt óbyggt. Þegar yðar einlægur mætti í skólann var búið að negla spjöld fyrir gluggana sem brotnuðu, það var sumsstaðar ekki mjög bjart inni þarna. Samt var nú eitthvað eftir af heillegum gluggum og þar gat að líta nokkuð sem fangaði athygli ungs manns, á sumum rúðunum voru göt! Þar sem var tvöfalt gler var á nokkrum stöðum gat á ytri rúðunni á stærð við krónupening og glerskífa og smásteinn milli glerja.

Það var þá hægt að gata glerrúður eftir alltsaman... þetta lærði maður í skólanum.

 

  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30