Af hálfvitum og pappakössum
Saga vita við strendur landsins spannar aðeins tæp 143 ár, kveikt var á Reykjanesvita, fyrsta vitanum, 1. des. 1878.
Hér við Breiðafjörð voru áramótabrennur og bál sem kynt voru í þeim tilgangi að vekja athygli á einhverju, kölluð vitar.
Á 7. áratug síðustu aldar var farið að nota gul blikkandi viðvörunarljós á vinnutæki og við vegi og akbrautir þar sem vegfarendur þurfa að gæta sérstakrar varúðar. Til að byrja með var notast við enska heitið á þessum ljósum, beacon, sem þýðir eiginlega viti. Menn með ríka málvitund áttuðu sig á að vitar eru staðbundnir, en þessi ljós eru sjaldnast lengi á sama stað, þannig að farið var að kalla þau hálf-vita. Þegar nýjungar eins og hálfvitarnir voru þá eru teknar í notkun, þá eru ekki allir fullir aðdáunar og sumum fannst þetta prýðilega viðeigandi heiti.
Pappakassar eru nefndir í fyrirsögninni, en það eru líklega algengustu umbúðir á vesturlöndum og sennilega víðar. Stærð pappakassa er mjög mismunandi, eðlilega, en afar sjaldgæft er að stærðin sé gefin upp í hefðbundnum mælieiningum, lítrum eða rúmsentimetrum. Það er þó ekki fyrirstaða þess að útvega hentuga kassa, allir skilja hvað skókassi eða bananakassi er stór. Á þeim tíma sem áfengisútsölur voru fáar á landinu og viðskiptavinir ÁTVR nýttu póstkröfuþjónustu í hinum dreifðu byggðum, þá voru staðlaðir tveggja flösku kassar, 6 - og 12 flösku kassar, sem dæmi og allir vissu við hvað var átt. Það einkenndi kassa úr „ríkinu“ að þeir voru girtir með níðsterkum plastböndum, svörtum eða bláum.
Um daginn barst til Vegagerðarinnar á Hólmavík sending, pappakassi ríflega 12 flösku með plastböndum, en fremur léttur og gutlaði ekkert í honum. Það eitt og sér olli nokkrum vonbrigðum meðal Vegagerðarmanna. Enginn kannaðist við að hafa pantað neitt sem væri svona fyrirferðarmikið, þannig að mikill spenningur var að opna kassann. Þegar hann var opnaður kom í ljós heilmikið af stoppi sem er notað þegar viðkvæmum varningi er pakkað inn og svo annar minni kassi úr þreföldum pappa, á stærð við 6 flösku kassa, með helmingi fleiri plastböndum. Var hann nú opnaður með ítrustu varúð, því þarna hlaut eitthvað verulega viðkvæmt að leynast. Er skemmst frá að segja að í þeim kassa reyndist enn einn pappakassinn og upp úr honum kom... voruð þið búin að fatta?
Jú, gult viðvörunarljós! Og það hafði verið pantað.
Hálfvitar eru nú ekki viðkvæmari en svo að þeir þola að vera úti í flestum veðrum á vinnuvélum þar sem eru högg og læti.