Tenglar

21. mars 2017 | Sveinn Ragnarsson

Af íbúafundi um ljósleiðara

Svæði 1.
Svæði 1.
1 af 8

Næstliðinn fimmtudag hélt sveitarstjórn íbúafund á Reykhólum, þar sem fjallað var um lagningu ljósleiðara um dreifbýli hreppsins. Með ljósleiðaranum verður okkur kippt mörg skref fram á við í fjarskiptum.

 

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri flutti kynningu, fór yfir aðdraganda málsins, stöðuna núna og næstu skref.

 

Þetta er í grunninn Evrópuverkefni, þar sem hinni „stafrænu áætlun“ er ætlað að styðja við nýsköpun og skapa ný störf. Á vegum Evrópusambandsins var gerð áætlun um háhraðatengingar 2010–2020 og markmiðið að árið 2020 hefðu allir notendur aðgang að 30 Mb/s tengingu og 50% þeirra aðgang að a.m.k. 100 Mb/s tengingu.

 

Íslensk stjórnvöld hafa í verkefninu Ísland ljóstengt 2017 miðað við að 99.9% heimila og fyrirtækja á landinu hafi aðgang að 100 Mb/s þráðbundinni tengingu. Til að ná því markmiði þarf að leggja ljósleiðara víða um hinar dreifðu byggðir landsins.

 

Reykhólahreppur lagði inn umsókn í verkefnið í jan. 2017, að undangenginni markaðskönnun, sem fólst í að athuga hvort einhver einkaaðili eða fjarskiptafyrirtæki hyggðist bjóða upp á ljósleiðaratengingar á umræddu svæði á markaðsforsendum, svo reyndist ekki vera. Reykhólahreppur fékk úthlutað 19 millj. króna, auk þess var veittur sérstakur byggðastyrkur kr. 6.5 millj.

 

Eins og áður er getið hér á síðunni, var undirritaður samningur um þennan styrk síðustu mánaðamót, og er þá Reykhólahreppur skuldbundinn til að klára ljósleiðaralögn um dreifbýli hreppsins á þessu ári.

 

Þetta verkefni, eins og flest, krefst nokkuð nákvæmra skilgreininga á annars frekar einföldum þáttum. Það byggist á að leggja ljósleiðara til lögheimila þar sem er föst heilsársbúseta og fyrirtækja sem starfa allt árið, utan markaðssvæðis.

 

Einnig verður eigendum sumarhúsa á svæðunum sem lagt verður um gefinn kostur á að tengjast kerfinu, en þurfa þá að greiða sjálfir kostnað við lagningu og tengingu heimtaugar, auk stofngjaldsins sem allir þurfa að greiða.

 

Staðan núna er sú, að fyrir liggur gróf kostnaðaráætlun og unnið er að hönnun kerfisins með ráðgjöf fyrirtækisins Rafvers hf.

 

Helstu tölur í þessu verki eru:

 

Heildarlengd lagna 73.5 km.

Líklegur fjöldi tenginga 76

 

Heildarkostnaður 80 millj.

 

Fjármögnun:

styrkur, Ísland ljóstengt           19 millj.

sérstakur byggðastyrkur           6.5 –

stofngjöld                                 19 ––

framlag sveitarfélags               35.5 –

                                   samtals 80 millj.

 

Kostnaður á hverja tengingu kr. 950.000.-

 

Næstu skref eru að halda áfram og ljúka hönnun, viðræður við Vegagerðina, skipulagning samstarfs við Orkubú Vestfjarða, og öflun leyfa og umsagna.

Tilkynna þarf þessa framkvæmd til ESA, sækja þarf um leyfi landeigenda, Vegagerðarinnar –ef við á– , fá umsögn minjavarðar, veiðifélaga, og að þessu afgreiddu og mögulega fleiru, þarf að fá framkvæmdaleyfi.

Þetta lítur út sem allflókið ferli, en fylgja verður öllum formsatriðum og reglum.

 

Leitað verður til íbúa á allra næstu dögum, vegna ákvarðana um lagnaleiðir og þáttöku í verkefninu.

Til að staðfesta þáttöku í verkefninu þarf að fylla út eyðublöð, sem verða aðgengileg hér á vefsíðu sveitarfélagsins, og einnig á pappír á hreppsskrifstofunni.

 

Gert er ráð fyrir að ráða verkefnisstjóra að þessari framkvæmd.

 

Ingibjörg Birna vill endilega hvetja fólk til að hafa samband ef frekari upplýsingar vantar, eða koma athugasemdum á framfæri. Þetta er í raun sameiginlegt verkefni okkar allra í sveitinni.

 

Skipulagðar fjarskiptaveitur má sennilega rekja til ársins 1776, þegar Kristján konungur 7. gaf út tilskipun um póststofnun á Íslandi.

Fyrsta póstferðin var svo farin 1782, einmitt hér á Vestfjörðum, frá Reykjanesi við Djúp að Haga á Barðaströnd. Þessi fyrsti póstur hét Ari Guðmundsson, og tekið fram að hann fór fótgangandi.

Í skipunarbréfi landpósta var meðal annars tekið fram að forðast skyldi seinlæti, tómlæti, athugaleysi og handvömm. Nú, 235 árum síðar er þetta enn haft í heiðri, Guðbjörn póstur verður seint sakaður um fyrrgreint.

 

Ljósleiðarinn kemur til með að taka við flestum núverandi fjarskipta- og gagnaflutningsleiðum, síma, netsambandi og sjónvarpi og eflaust fleiru.

 

Og þó það verði stórkostleg framför að fá hann í gagnið, þá leysir hann póstinn aldrei alveg af hólmi.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31