Afleitur varpárangur hjá erninum hér vestra
Árangur arnarvarpsins á þessu ári var í meðallagi við Faxaflóa en afar slakur við norðanverðan Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Á því svæði komu einungis 6 af 26 pörum upp ungum, að sögn Kristins Hauks Skarphéðinssonar sérfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í samtali við Fréttatímann. Kristinn Haukur segir að örninn sé mjög berskjaldaður fyrir slæmu tíðarfari fram í lok júní en þá eru ungarnir orðnir nógu þroskaðir til að halda sjálfir á sér hita. Sjálft varpið gekk reyndar þokkalega hjá erninum og vonum framar miðað við afleitt tíðarfar í vor, sem hafði áhrif á varp fugla víða um land.
Um 65 pör eru í íslenska arnarstofninum. Fjöldinn hefur staðið í stað undanfarin sex ár eftir nokkuð samfelldan vöxt um áratugaskeið. Að þessu sinnu urpu ernir í 41 hreiður á landsvísu og komust 29 ungar upp í 19 þeirra. Hafa ungarnir ekki verið færri síðan 2006.
Varpárangur þeirra para sem komu upp ungum á annað borð var hins vegar með besta móti og komu hlutfallslega mörg þeirra upp tveimur ungum. Eitt arnarpar kom upp þremur ungum. Slíkt er afar sjaldgæft hér á landi og aðeins vitað um átta slík tilvik allt frá seinni hluta 19. aldar, að sögn Kristins Hauks.
Ógætileg umferð við arnarhreiður á viðkvæmasta tímanum getur einnig leitt til þess að varp misfarist. „Sem betur fer virða langflestir hreiðurhelgi arnarins og fátítt er nú orðið að menn eyðileggi vísvitandi arnarvarp, þótt það gerist því miður nær árlega, þrátt fyrir að örninn hafi verið alfriðaður í nær heila öld eða frá 1914“, segir Kristinn Haukur.
Náttúrufræðistofnun Íslands vaktar arnarstofninn í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Náttúrustofurnar í Stykkishólmi og Bolungarvík.