Afmælis kosningaréttar kvenna minnst
Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna gangast Samband breiðfirskra kvenna og Félag eldri borgara í Dalasýslu og Reykhólahreppi fyrir kvöldvöku í Dalabúð í Búðardal á föstudag, 19. júní, og hefst hún kl. 20.30.
Að loknu setningarávarpi verður upplestur úr ritum breiðfirskra kvenna. Hanna Dóra Sturludóttir óperusöngkona syngur létt lög og síðan verður almennur söngur, hvort tveggja við undirleik Halldórs Þórðarsonar.
Aðgangseyrir er kr. 500. Kaffi og meðlæti innifalið. Allir velkomnir.
Alþingi samþykkti haustið 1913 og staðfesti árið eftir breytingu á stjórnarskrá, sem fól í sér að konur og vinnumenn, 40 ára og eldri, skyldu fá kosningarétt til Alþingis. Aldurstakmarkið skyldi að lækka um eitt ár á ári þar til 25 ára aldurstakmarki yrði náð, eða fimmtán árum seinna. Þannig fóru lögin til konungs sem staðfesti þau 19. júní 1915.
Um hið sérstaka aldursákvæði sagði Bríet Bjarnhéðinsdóttir í Kvennablaðinu 1913:
„Og hvað sem menn segja, þá verður því ekki neitað, að snoppungur er það fyrir konur, að fá það framan í sig með stjórnarskrárlögum samþykktum af Alþingi, að fyrst við 40 ára aldur nái konur þeim þroska, sem 25 ára karlmenn hafi náð.“