Afmælisfagnaður í veðurblíðu við Berufjörð
Sævar Jónsson kaupmaður í Leonard og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu hélt upp á fimmtugsafmæli sitt í Reykhólasveit núna á laugardagskvöldið. Sjálfur afmælisdagurinn er reyndar í dag, 22. júlí. Sævar og Ólafur bróðir hans hafa fest kaup á sumarbústaðalandi úr jörðinni Hafrafelli við Berufjörð í Reykhólasveit og nefna landið Hafrahlíð. Þar ætla þeir að byggja á næstu árum, en faðir þeirra er úr Austur-Barðastrandarsýslu.
Afmælisveislan var haldin í stóru tjaldi á landareigninni og aðstaðan eins og best verður á kosið. Veðrið lék við gestina, sem voru rúmlega hundrað, sól skein í heiði, stafalogn var og hiti.
Sævar Jónsson (Arnfinnur Sævar) lék 75 landsleiki fyrir Íslands hönd á löngu árabili, 69 leiki með A-landsliðinu, þar af 11 sem fyrirliði, og 6 leiki með landsliði 21 árs og yngri. Síðasta landsleikinn spilaði hann árið 1992 þegar hann var kominn hátt í hálffertugt. Hér heima lék hann með Val og varð Íslandsmeistari með öllum flokkum félagsins. Erlendis var hann í mörg ár í atvinnumennsku hjá Cercle Brügge í Belgíu, Brann í Noregi og Solothurn í Sviss.
Í umfjöllun Morgunblaðsins um leik ÍA og Vals á Íslandsmótinu haustið 1992 (mynd nr. 3) segir meðal annars svo um nærri hálffertugan manninn: „Sævar Jónsson var að öðrum ólöstuðum besti maður leiksins, var gríðarlega sterkur í vörninni, tók virkan þátt í sókninni og aukaspyrnur hans voru sannkallað augnayndi.“