18. janúar 2010 |
Áformað að „færa“ Bæjarhrepp á Ströndum
Bæjarhreppur á Ströndum mun tilheyra Norðurlandi vestra en ekki Vestfjörðum, samkvæmt þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Þessi breyting varðar svæðaskiptingu sem notuð verður til grundvallar við gerð sóknaráætlana fyrir einstök landsvæði, en þær eru hluti af byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Að öðru leyti breytist landafræðin ekki á þessu svæði, ef svo má að orði komast. Bæjarhreppur er allur sunnan Bitrufjarðar og þess vegna ekki á sjálfum Vestfjarðakjálkanum eins og hann er venjulega skilgreindur.
Segja má að eftir að nýi vegurinn um Arnkötludal (Þröskulda) var tekinn í notkun hafi Bæjarhreppur færst fjær Vestfjörðum, þótt það kunni að hljóma einkennilega. Hann er að minnsta kosti meira úrleiðis en áður.