Tenglar

26. apríl 2015 |

Áframhaldandi ófremdarástand í samgöngumálum

„... og þegar litið er til þjónustunnar er staðan enn verri.“
„... og þegar litið er til þjónustunnar er staðan enn verri.“

Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtaka sveitarfélaga héldu vorfund sinn í Reykjavík 16. apríl. Á dagskrá var umræða um stöðu verkefna landshlutasamtakanna og sérstök umræða um stöðu almenningssamgangna og framkvæmd sóknaráætlunar landshluta. Undir liðnum önnur mál var tekið til umræðu starf landshlutanefndar fyrir Norðurland vestra og rætt um fjárveitingar til samgöngumála. Fundurinn samþykkti að senda eftirfarandi áskorun um samgöngumál til Alþingis og ríkisstjórnar, en Aðalsteinn Óskarsson, frkvstj. Fjórðungssambands Vestfirðinga, sendi vefnum hana til birtingar.

 

  • Á fundi ríkisstjórnar þriðjudaginn 14. apríl sl. lagði innanríkisráðherra fram samgönguáætlun til fjögurra ára (2014-2018) og ef að líkum lætur mun Alþingi samþykkja að veita afbrigði frá dagskrá til að málið geti fengið þinglega meðferð á vorþingi.
  • Landshlutasamtökin harma hversu seint þetta mikilvæga verkefni kemur fram, en ekki síður þær áherslur í byggðaþróun sem þar koma fram. Greiðar samgöngur eru grundvöllur vaxtar og viðgangs byggðarlaga og hafa grundvallarþýðingu í uppbyggingu þjónustu- og vaxtarsvæða. Sú samgönguáætlun sem innanríkisráðherra hefur kynnt fyrir ríkisstjórninni gerir ráð fyrir að nánast engar nýframkvæmdir verði á yfirstandandi ári og þegar litið er til þjónustunnar er staðan enn verri, enda ekki tekið á margra ára uppsöfnuðum skuldavanda.
  • Hækkun fjárheimilda til málaflokksins á tímabili áætlunar er óveruleg og þýðir í raun áframhaldandi ófremdarástand. Þessi niðurstaða er mikil vonbrigði þar sem mikilvægi samgangna hefur aldrei verið meira. Kemur þar margt til, s.s. fjölgun ferðamanna, stórauknir vöruflutningar, tryggur aðgangur að heilbrigðisþjónustu, stækkun atvinnusvæða o.fl. Atvinnulífið beinlínis krefst þess að möguleikar á að fara á milli staða með skjótum og öruggum hætti séu fyrir hendi. Þá þarf ekki að fjölyrða um gildi góðra samgangna fyrir þróun byggðar í landinu og hversu mikilvægt er að verja fjármunum til að bæta samgöngur til staða sem gegna þýðingarmiklu efnahagslegu hlutverki fyrir þjóðfélagið í heild. Þá eru úrbætur í samgöngumálum ekki síst mikilvægar til að tryggja umferðaröryggi.
  • Samgönguframkvæmdir eru þegar á heildina er litið hagkvæmar fyrir þjóðfélagið og draga úr rekstrarútgjöldum hins opinbera, fyrirtækja og almennings. Því er það umhugsunarefni, að í hvert sinn sem þörf þykir að draga saman seglin eru skornar niður fjárveitingar til samgöngumála eða samgönguframkvæmdum frestað.
  • Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að unnið verði að samgöngubótum með áherslu á tengingu byggða. Landshlutasamtökin harma að ekki sé ríkari vilja að finna í samgönguáætlun til næstu fjögurra ára til að ná þessu markmiði. Óhætt er að fullyrða að enginn einn málaflokkur sé jafn mikilvægur fyrir landsmenn alla. Samtökin skora því á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja stóraukið fjármagn til samgöngumála.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31