Tenglar

12. febrúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Afturrúðan í Landróvernum brotnaði

Stjórn Heimamanna við Landróverinn: Játvarður Jökull, Ágúst Már, Egill, Eiríkur og Brynjólfur.
Stjórn Heimamanna við Landróverinn: Játvarður Jökull, Ágúst Már, Egill, Eiríkur og Brynjólfur.

Liðsmenn í Björgunarsveitinni Heimamönnum í Reykhólahreppi hafa haft í nógu að snúast síðasta sólarhringinn. Hvert beiðnin um aðstoð rak aðra frá því um níuleytið í gærkvöldi og var þeim störfum ekki lokið fyrr en um sexleytið í morgun. Síðan bættist eitt verkefni við í dag. „Þetta er bara veðrið,“ segir Brynjólfur V. Smárason, formaður Heimamanna. Fyrst var óskað eftir aðstoð uppi á Þröskuldum þar sem kona og þrjú börn sátu föst.

 

„Við fórum og sóttum þau. Við komum ekki bílnum hennar niður en aðstoðuðum í leiðinni einn jeppa niður og vorum komnir heim eitthvað kringum miðnætti,“ segir Brynjólfur. Konan og börnin fengu gistingu á Miðjanesi. Í þessari ferð brotnaði afturrúðan í Landróver Heimamanna.

 

„Nokkru síðar var hringt og þá vantaði tvo menn aðstoð sem voru fastir við Bæjarána inni í sveit. Við drógum þá upp og þeir héldu áfram suður. Líklega hefur það verið um þrjú-fjögurleytið í nótt sem við komum úr því. Síðan vantaði Landsnet aðstoð við að leita að bilun í rafmagnslínu inni í Geiradal og úr þeirri ferð komum við heim um sexleytið í morgun.“

 

Í dag fóru síðan menn úr björgunarsveitinni á tveimur bílum á eftir snjóblásara til að koma bíl konunnar niður af Þröskuldum.

 

Björgunarsveitin Heimamenn í Reykhólahreppi starfar innan vébanda Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Sjálfboðaliðarnir í björgunarsveitunum eru á vaktinni með glöðu geði nótt sem nýtan dag um land allt.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30