Ágæt innanlandssala en erfiðleikar á heimsmarkaði
Sala á íslensku kindakjöti hefur verið ágæt undanfarin misseri og ár. Birgðir í upphafi sláturtíðar 2016 voru minni en á sama tíma árið á undan. Samkvæmt tölum MAST jókst sala á kindakjöti 2012 til 2014 en dróst lítillega saman 2015. Á fyrsta ársfjórðungi 2016 varð hins vegar 25,1% söluaukning. Í júní jókst salan um 5,6% miðað við sama mánuð á síðasta ári. Sala til veitingastaða innanlands hefur aukist samfara markaðsstarfi gagnvart erlendum ferðamönnum sem hófst í sumar.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu sem Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Markaðsráðs kindakjöts, sendi frá sér og birtist á vef Landssamtaka sauðfjárbænda í gær. Þar segir einnig m.a.:
Neytendur og bændur í sama liði
Lambakjötsneysla á mann á Íslandi er með því mesta sem þekkist. Samkvæmt nýlegri könnun Gallup og Klúbbs matreiðslumeistara telja um 74% að lambakjöt og lambakjötsréttir séu þjóðarréttur Íslendinga. Alþjóðlegur samanburður á smásöluverði sýnir jafnframt að verð á lambakjöti til neytenda er mjög lágt hér á landi.
Algengt að þjóðir grípi inn í
Sala á íslensku lambakjöti hefur þannig gengið ágætlega innanlands og erlendis þar sem afurðirnar eru seldar sérstaklega sem íslenskar. Þar sem verið er að selja kjöt eða aðrar afurðir án upprunatengingar inn á heimsmarkaði er verðið hins vegar sveiflukenndara. Það er nokkuð algengt að þjóðir grípi til aðgerða ef hætta á er á hruni í einstaka greinum, gjaldþrotum afurðastöðva, atvinnuleysi eða byggðaröskun vegna slíkra tímabundinna sveiflna.
Styrking krónunnar og Úkraínudeilan valda erfiðleikum
Mikil styrking á gengi íslensku krónunnar hefur valdið þrengingum hjá öllum útflutningsgreinunum á Íslandi. Þá hefur viðskiptadeila Vesturveldanna og Rússlands leitt til verðlækkunar á mörkuðum fyrir ýmsar landbúnaðarafurðir í Evrópu. Flest bendir til þess að þetta sé tímabundin niðursveifla. Verð á kindakjöti á heimsmarkaði hefur lækkað undanfarna mánuði en virðist nú vera á uppleið.
Bændur tekið á sig mikla lækkun
Íslenskir sauðfjárbændur tóku á sig um 600 milljóna kr. tekjuskerðingu í haust vegna ástandsins á heimsmarkaði. Rétt er að hafa í huga að bændur hafa þegar lagt út fyrir nánast öllum framleiðslukostnaði og innt af hendi nánast alla þá vinnu sem til þarf. Engin opinber verðlagning er í sauðfjárrækt á Íslandi. Kvótakerfi var afnumið 1995 og útflutningsbætur aflagaðar 1992.
Lækkun kemur illa við afurðastöðvar
Íslenskur landbúnaður veltir hartnær 70 milljörðum kr. árlega og skapar 10 til 12 þúsund bein og óbein störf um land allt. Erfiðleikar í útflutningi á sauðfjárafurðum vegna gengis krónunnar og sveiflna á heimsmarkaði hafa komið illa við kjötafurðastöðvar. Viðskiptasambönd og útflutningsverkefni í þróun eru í uppnámi.
Brugðist við tímabundnu ástandi
Ríkisstjórn Íslands lofaði sérstöku framlagi haustið 2016 til að bregðast við þessu tímabundna ástandi, eins og fram kemur í fjáraukalögum sem nú eru til meðferðar hjá Alþingi. Samtök kjötafurðastöðva sjá um skipulagningu þess. Tilgangurinn er að vernda störf út um landið og koma í veg fyrir alvarlega byggðaröskun. Markaðsráð Kindakjöts kemur að verkefninu til að tryggja að féð nýtist í áframhaldandi markaðssetningu á erlendum mörkuðum.