Ágreiningur um heimtaugar
Úrskurðarnefnd Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) hefur fellt úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um útnefningu Mílu til að sinna alþjónustu í fjarskiptum. Óvíst er hvert framhaldið verður og segist forstjóri Mílu líta svo á að fyrirtækinu sé ekki skylt að sinna alþjónustu í kjölfar úrskurðarins.
Svo gæti þó farið að Míla fái útnefningu að nýju, en fyrirtækið hefur verið bundið þessum kvöðum síðustu ár. Fyrri útnefning var runnin út á tíma og Póst- og fjarskiptastofnun uppfærði þær skyldur sem henni fylgja, og útnefndi Mílu að nýju á síðasta ári.
Míla kærði hins vegar þá útnefningu, þar sem fyrirtækið taldi að nýjar og auknar skyldur hefðu verið lagðar á fyrirtækið, sem ekki rúmist innan lögbundinnar skilgreiningar á alþjónustu og gangi lengra en þær kvaðir sem hvílt hafi á fyrirtækinu áður. Þær snúist meðal annars um nýlagningu og endurnýjun heimtauga. Í útnefningu PFS sé Míla skylduð til að láta slíkt ná til allra tenginga innan sveitarfélagsmarka.