Ágústa Ýr: Glæsilegur árangur sem fyrr
Ágústa Ýr Sveinsdóttir frá Skálanesi í Reykhólahreppi varð í öðru sæti í kvennaflokki á Norðurlandamótinu í svifvængjaflugi, sem fram fór í Saint-Jean Montclar í Frönsku Ölpunum nú fyrir skömmu. Þetta er annað árið í röð sem Ágústa Ýr hreppir annað sætið á Norðurlandamótinu.
Annar íslenskur keppandi komst líka á verðlaunapall á Norðurlandamótinu, Þorri Gestsson, sem varð þriðji í karlaflokki. Níu íslenskir keppendur tóku þátt í mótinu, en þar af var Ágústa Ýr eina konan. Alls voru keppendur tæplega 150.
Næst á dagskránni hjá Ágústu Ýri er Evrópumótið í svifvængjaflugi, sem fram fer í Kruševo í Makedóníu í næsta mánuði. Kruševo er liðlega fimm þúsund íbúa fjallabær, liggur í um 1.350 metra hæð.
Ágústa Ýr er í Svifvængjafélaginu Bólstra. Meðfylgjandi mynd tók einn af félögum hennar þar, Tomasz Chrapek, sem einnig keppti á mótinu.
Fleiri fréttir af þessari ungu konu sem vissulega er sitthvað til lista lagt:
Alltaf til í gott ævintýri (Reykhólavefurinn 30. nóvember 2015)
Pósturinn komst til skila eftir fjórtán ár (Reykhólavefurinn 27. desember 2013)
Metnaður Ágústu er okkur öllum hvatning (Reykhólavefurinn 23. febrúar 2012)
Ekki pláss fyrir verðlaunin í bakpokaferð um heiminn (Reykhólavefurinn 10. okt. 2011)