Ákall til íbúa Reykhólahrepps
Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps og Bæjarstjórn Vesturbyggðar biðla til íbúa Reykhólahrepps að leggjast á árar með okkur við að ljúka endurnýjun Vestfjarðavegar sem stofnbrautar sem allra fyrst og leysa þannig samgönguvandamál Vestfjarða.
Samgöngur okkar Vestfirðinga hafa lengi valdið íbúum og fyrirtækjum erfiðleikum og mikil vinna verið lögð í endurbætur á Vestfjarðavegi. Hingað til hefur algjör sátt og einhugur ríkt meðal allra sveitarstjórna á Vestfjörðum um að leggja áherslu á láglendisveg út úr fjórðungnum samkvæmt leið Þ-H til að stytta ferðatíma og auðvelda samgöngur árið um kring. Nú eru blikur á lofti þegar við heyrum að rof hefur orðið í þessari samstöðu okkar Vestfirðinga þegar sveitarstjórn Reykhólahrepps virðist ætla að fara aðrar leiðir en áður hefur verið sátt um.
Við íbúar í Vesturbyggð og Tálknafirði óskum eftir nánu samstarfi við íbúa Reykhólahrepps um að koma samgöngumálum okkar í viðunandi horf sem allra fyrst. Vestfirðingar eru of fáir til að standa ekki saman í sínum framfaramálum og brýnt að við stöndum öll saman að hagsmunamálum fjórðungsins sem áður. Framundan er stór ákvörðun sem sveitarstjórn Reykhólahrepps þarf að taka og við óskum eftir því að tekið verði tillit til hagsmuna okkar íbúa og fyrirtækja á Vestfjörðum við þá ákvörðun. Það skiptir alla Vestfirðinga gríðarlegu máli að fá samgöngubætur á Vestfjarðavegi í gegn sem allra fyrst og íbúar Reykhólahrepps hafa lykilinn að þeim samgöngubótum í sínum höndum.
Við óskum jafnframt eftir stuðningi stjórnvalda til að koma þessum brýnu samgöngubótum samkvæmt Þ-H leið á Vestfjarðavegi í gegn sem allra fyrst.
Dalli, fstudagur 21 desember kl: 00:39
Ég skammast mín fyrir að vera Reykhólasveitungur, þegar sveitungar mínir tefja vegabætur í gegnum hreppinn. Ég vil ekki fá R-leiðina hér í gegn, með tilheyrandi eyðileggingu bújarða og skógræktar á Barmahlíð. Hver vill umferð í gegnum þéttbýli?