Tenglar

14. september 2013 | vefstjori@reykholar.is

Ákvarðanir stjórnvalda oft byggðar á vanþekkingu

„Vestfirðingar ánægðir með lífsgæði sín“ er yfirskrift umræðna um stöðu og horfur á Vestfjörðum sem birtast í Morgunblaðinu í dag. „Aukið sjálfstraust einkennir viðhorf fólks á Vestfjörðum. Fólki finnst að það þurfi ekki lengur að réttlæta búsetu sína þar. Það er ánægt með lífsgæði sín og stolt af samfélaginu. Bölmóðurinn sem litaði umræður um málefni fjórðungsins um langt árabil og skapaði Vestfjörðum neikvæða ásýnd er horfinn. Þetta helst í hendur við uppgang í atvinnulífinu. Samgöngubætur undanfarin ár skipta ekki síður máli; þær hafa lagt grundvöll að nýjum tækifærum til eflingar byggðunum“, segir í inngangsorðum.

 

Hringborðsumræður þessar fóru fram undir stjórn Guðmundar Magnússonar sagnfræðings og rithöfundar í tengslum við 100 daga hringferð blaðsins um landið í tilefni af 100 ára afmæli þess síðar í haust.

 

Þátttakendur voru Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum, Indriði Indriðason, sveitarstjóri á Tálknafirði, Friðbjörg Matthíasdóttir, deildarstjóri í framhaldsskóladeildinni á Bíldudal og forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, Elías Jónatansson, bæjarstjóri í Bolungarvík, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri á Ísafirði, og Andrea Kristín Jónsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar.

 

Þátttakendur í umræðunum sögðu að mikilvægt væri að halda á lofti þeirri sjálfsmynd íbúanna sem getið er hér í upphafi, því hún hefði áhrif á mynd annarra landsmanna af Vestfjörðum; skapaði svæðinu ímynd. Mestu skipti þó að þessi mynd væri sönn og endurspeglaði mannlífið í landshlutanum. Þar væri gott að búa.

 

Því færi þó fjarri að smjör drypi af hverju strái á Vestfjörðum. Við margvísleg vandamál væri að etja; fólksfækkun, fábreytt atvinnulíf, erfiðar samgöngur að vetrarlagi, lágt íbúðaverð, hátt raforkuverð. Verst af öllu, sögðu þeir, væri þó að mikilvægar ákvarðanir sem varða lífskjör og opinbera þjónustu, samgöngur, löggæslu og heilsugæslu, væru teknar fyrir sunnan án nægilegs samráðs og þekkingar á aðstæðum og staðháttum í landsfjórðungnum.

 

Fram kom að mjög fari í taugarnar á fólki á Vestfjörðum hve ákvarðanir um þeirra mál sem teknar eru af stjórnvöldum fyrir sunnan, gjarnan í sparnaðarskyni eða til hagræðingar, séu oft byggðar á vanþekkingu og skilningsleysi á aðstæðum. Mjög skorti á að þau ráðfæri sig við heimamenn.

 

Þetta snýr reyndar ekki aðeins að ríkisvaldinu. Þannig hafi það komið íbúum í Reykhólahreppi spánskt fyrir sjónir að þegar ljósleiðari Símans var fyrir skömmu lagður um endilangan hreppinn var hann ekki tengdur við byggðina þar heldur aðra þéttbýlisstaði. Ekkert liggur fyrir um það hvenær ljósnetið verður virkjað í þágu hreppsbúa sem eru um 300 talsins.

 

Margt sem varðar Vestfirði bar á góma í þessum umræðum eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31