Tenglar

29. október 2014 | vefstjori@reykholar.is

„Ákveðinn hringlandaháttur“ gagnrýndur

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga lýsir miklum vonbrigðum með þá stöðu sem komin er upp á Vestfjörðum, með fækkun opinberra starfa á undanförnum árum og almennan samdrátt í fjárveitingum til stofnana á Vestfjörðum. Öll þjónustu- og atvinnusvæði á Vestfjörðum hafa tapað störfum og fundið fyrir lækkun þjónustustigs vegna minni umsvifa í starfsemi ríkisins. Framboð starfa minnkar og fábreyttni atvinnulífs eykst.

 

Þannig hefst ályktun sem stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV) samþykkti á síðasta fundi sínum. Síðan segir:

 

Tafir á framkvæmd verkefnanna „Breyting á framkvæmdarvaldi og stjórnsýslu ríkis í héraði“ og „Breyting á lögreglulögum - Umdæmaskipan, staðsetning starfssstöðva“ auk ákveðins hringlandaháttar við skipan sýslumanna og lögreglustjóra á Vestfjörðum valda því að stöðugildi á vegum ríkisins verða nú opinbert bitbein á milli sveitarfélaga á Vestfjörðum. Stjórn FV telur því ekki rétt, að FV álykti um þetta mál að þessu sinni og beinir því til innanríkisráðherra og dómsmálaráðherra að skoða þær ólíku skoðanir sem koma fram í ályktunum sveitarfélaga á Vestfjörðum og taka sínar ákvarðanir í framhaldi af því.

 

Stjórn FV vill í þessu samhengi einnig benda á, að í kynningu við aðdraganda breytinga laga um sýslumenn og lögreglustjóra var því hampað að embættin yrðu efld og störf flutt til þeirra úr ráðuneyti og stofnunum. Þessum hluta málsins hefur síðan lítið verið hreyft og litlar upplýsingar komið fram um tímasetningu flutnings eða umfang verkefna. Í umsögn fráfarandi stjórnar FV í aðdraganda málsins lagði FV ríka áherslu á að löglærðir fulltrúar verði að vera til staðar á öllum núverandi sýsluskrifstofum til þess að mögulegt sé að flytja verkefni til þeirra. Löglærður fulltrúi á hverri starfstöð sé skilyrði til þess að markmið stjórnvalda um verkefnatilflutning frá ráðuneytum og stofnunum gangi eftir.

 

Stjórn FV telur það blasa við og auka á vanda þessa máls, að fjárveiting til sýslumanns á Vestfjörðum á árinu 2015 muni ekki nægja til að uppfylla þau lágmarks skilyrði. Stjórn FV krefst þess að fjárveiting til sýslumannsins á Vestfjörðum verði aukin við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2015 til að staða löglærðra fulltrúa verði skipuð á öllum starfsstöðvum og þeim þannig fjölgað að lágmarki um tvo frá því sem er nú í dag.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30