Ákvörðun um fækkun póstdreifingardaga staðfest
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um fækkun póstdreifingardaga í hluta Reykhólahrepps úr fimm dögum í viku í þrjá daga í viku. Ákvörðunin tekur til átta bæja, þ.e. Hofsstaða, Kinnarstaða, Djúpadals, Brekku, Gufudals, Fremri-Gufudals, Skálaness og Múla í Kollafirði. Með ákvörðun sinni fór PFS að tilmælum Íslandspósts hf. um fækkun dreifingardaga en meðal röksemda fyrirtækisins voru mikill kostnaður við póstdreifingu, fækkun íbúa í sveitum, fækkun bréfa, umhverfisvernd og krafa um hagkvæman rekstur.
Með bréfi dags. 28. september 2007 óskaði Íslandspóstur hf. eftir því við PFS að stofnunin gæfi leyfi fyrir því að dreifingardögum yrði fækkað úr fimm í þrjá til átta bæja í landpóstaleið sem ekin væri frá Króksfjarðarnesi, nánar tiltekið þeirra bæja „sem eru fyrir norðan Bjarkalund". Með bréfum dags. 1. október 2007 var þeim átta bæjum sem umsókn Íslandspósts hf. tók til gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við erindið.
Athugasemdir bárust í tölvupósti dags. 14. október, undirritaðar „Íbúar Reykhólahrepps vestan Bjarkalundar", en auk þess skilaði Reykhólahreppur inn umsögn um erindi Íslandspósts. Þann 28. mars 2008 kærði Reykhólahreppur ákvörðun PFS og er það sú kæra sem úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur nú vísað á bug.
Úrskurður nefndarinnar er á þessa leið:
„Hin kærða ákvörðun PFS nr. 5/2008 frá 27. febrúar 2008 um fækkun dreifingardaga út frá Króksfjarðarnesi er staðfest með vísan til forsendna PFS og nefndarinnar. Ef aðilar máls vilja ekki una úrskurði þessum þarf að bera hann undir dómstóla innan sex mánaða frá því að aðilar fengu vitneskju um hann."
Sjá nánar (pdf-skjöl):
Ákvörðun PFS nr. 5/2008 - Erindi Íslandspósts hf. um fækkun dreifingardaga á landpóstaleið sem ekin er frá Króksfjarðarnesi - 27. febrúar 2008
Úrskurður úrskurðarnefndar nr. 3/2008 - Reykhólahreppur gegn Póst- og fjarskiptastofnun og Íslandspósti hf. - 11. ágúst 2008
Gunnbjörn Óli Jóhannsson, rijudagur 19 gst kl: 21:09
Fyrst að svona er komið væri ekki best að bæirnir fyrir vestan Bjarkalund fái að setja upp póstkassa í Bjarkalundi til að fá póstinn áfram alla virka daga ,(skil reyndar ekki hvaða rök eru að skilja bæina í þorskafirði eftir fyrst að það er komið með póst í Bjarkalund)og væri kannski hægt að semja við skólabilinn í gufsu að taka Gufsu póstinn með á þá bæi sem börn eru sótt á .Já aumt er ástandið!!!!