Tenglar

2. ágúst 2013 | vefstjori@reykholar.is

Aldraður gestur nýtur blíðunnar á Reykhólum

Feðgarnir Gunnar Kristinn og Geir skála í bergvatni í blíðunni við Álftaland.
Feðgarnir Gunnar Kristinn og Geir skála í bergvatni í blíðunni við Álftaland.

Geir R. Tómasson tannlæknir og sonur hans voru á Gistiheimilinu Álftalandi á Reykhólum í nótt og njóta veðurblíðunnar við Breiðafjörð þessa dagana. Þetta væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að Geir er 97 ára og hann er bílstjórinn á ferðalaginu. Síðdegis í gær hitti undirritaður þá feðga þar sem þeir voru í heitu pottunum við Álftaland og nýbúnir að færa sig milli potta. Þeir voru með í glösum bergvatnið á Reykhólum og sögðu það ákaflega gott.

 

Óhætt er að segja að Geir tannlæknir sé með ólíkindum unglegur og eldklár og sprækur miðað við aldur. Varla myndi ókunnugum detta í hug að þessi maður væri meira en um sjötugt.

 

Geir er fæddur um miðbik fyrri heimsstyrjaldar og var í Þýskalandi á dögum hinnar seinni. Í fyrravor flutti hann hátíðarræðu við skólaslit Menntaskólans í Reykjavík á 75 ára stúdentsafmælinu sínu.

 

Þess má til gamans geta, að elsti sonur Geirs tannlæknis af þremur, Reynir Tómas Geirsson læknir, var skólabróðir undirritaðs og samstúdent hans um vorið fyrir 47 árum frá gamla skólanum hans Geirs og segir það kannski nokkuð um aldur hins unglega föður. Miðsonurinn ofursprettharði Elmar Geirsson, sem lagði stund á tannlækningar eins og faðirinn, var á sínum tíma atvinnumaður í knattspyrnu í Þýskalandi og lék á þriðja tug landsleikja fyrir Íslands hönd. Yngsti sonurinn Gunnar Kristinn Geirsson, sem nú er á ferð með föður sínum, lauk á sínum tíma háskólanámi í þýsku og ensku.

 

Geir R. Tómasson lauk stúdentsprófi frá MR vorið 1937. Hann hugðist síðan fara til náms í Englandi, en það var mjög dýrt á þeim tíma. Aftur á móti var það töluvert ódýrara í Þýskalandi og þess vegna hélt Geir þangað ásamt félögum sínum, þeim Jóhannesi Zoëga og Brodda Jóhannessyni, sem einnig urðu þjóðkunnir menn, og fleiri nýstúdentum. Þeir komu fyrst til Hamborgar þar sem tveir íslenskir námsmenn tóku á móti þeim, þeir Bjarni Jónsson síðar beinalæknir og Matthías Hreiðarsson síðar tannlæknir. Þeir sýndu hinum nýkomnu það markverðasta sem Hamborg hafði að bjóða að nóttu til.

 

„Það var nú aldeilis sýning! Við fórum á Reeperbahn og af einu öldurhúsinu á annað og enduðum í Herbertsstrasse. Við sáum hvaða lystisemdir voru þar í boði en við notuðum okkur það nú ekki,“ segir Geir.

 

Daginn eftir skildi svo leiðir íslensku nýstúdentanna og fór hver í sína áttina í Þýskalandi þangað sem þeir voru skráðir til náms. Geir hélt til Kölnar, þar sem hann var mörg næstu árin. Hann var þar öll stríðsárin og kom ekki alkominn heim til Íslands aftur fyrr en árið 1946. Á meðan hann beið eftir húsnæði til að stofna eigin stofu vann hann sem „assistent“ hjá áðurnefndum Matthíasi Hreiðarssyni tannlækni í Reykjavík.

 

Í Köln kynntist Geir ungri stúlku eins og gengur. Núna hafa Maria Elfriede Tómasson og hann verið gift í meira en sjötíu ár.

 

Stríðið setti sitt mark á lífið í Köln. Þar voru gerðar miklar loftárásir eins og á aðrar helstu borgir Þýskalands en Geir og María og hennar fólk sluppu ósködduð úr þeim hildarleik þó að stundum mætti litlu muna.

 

„Sprengjunum rigndi af himnum ofan eins og skæðadrífa. Ég sagði oft við fólkið þegar við sátum niðri í kjallara og bjuggumst við hinu versta: Verið róleg, hér erum við með hamingjuna innanborðs og það skeður ekkert. Og það kom aldrei neitt fyrir okkur, nema einu sinni. Við vorum í öðru húsi og þá féll fosfórsprengja á þrepin við hús tengdaforeldra minna og eldur kviknaði. Eitt sinn var ég á leiðinni heim gangandi í kolniðamyrkri og borgin myrkvuð, þegar gerð var loftárás. Ég heyri bombu falla og hávaðinn var ógurlegur og ég þeyttist í jörðina. Ég lenti á grúfu en sem betur fer kom ég höndunum fyrir mig, var fljótur að standa upp og hraða för minni heim.“

 

Geir er nýbúinn að fá endurnýjað ökuskírteini. „Ég þarf að endurnýja þetta á hverju ári núna,“ segir hann og hlær. „Þeir verða alltaf jafnundrandi á sýsluskrifstofunni í Hafnarfirði þegar ég kem!“

 

- hþm

_______________________

 

Hér má lesa ítarlegt og fróðlegt viðtal við Geir tannlækni í Vesturbæjarblaðinu í desember á liðnum vetri. Klausa úr viðtalinu:

Ég var trúlofaður þýskri stúlku, sem síðar varð konan mín. Einn daginn tekur hún á móti mér heldur dauf í dálkinn en hún hafði þá fengið bréf frá þýsku herstjórninni að koma til starfa. Við ákváðum þá að gifta okkur samstundis í fallegri kirkju skammt frá Köln en með því slapp hún undan þessari kvöð, enda orðin Íslendingur. Tveimur dögum eftir að við giftum okkur hvarf kirkjan í sprengjuregni frá Bretum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31