Aldraður maður í heimsókn á heimaslóð
Meðal kirkjugesta í Garpsdal á hvítasunnudag var Halldór Jónsson, aldraður maður sem var mestan hluta ævinnar búsettur í Garpsdal og síðan í Króksfjarðarnesi, í daglegu tali nefndur Halli í Garpsdal og síðar Halli í Nesi. Við þetta tækifæri færði hann Garpsdalskirkju að gjöf nýja áletraða biblíu til minningar um fósturforeldra sína, hjónin Haflínu Guðjónsdóttur og Júlíus Björnsson, sem bjuggu í Garpsdal meira en fjóra áratugi. Halldór Jónsson frá Króksfjarðarnesi, eins og hann er skráður í símaskrá, fæddist á Kjörseyri við Hrútafjörð síðla árs 1916. Hann er því kominn yfir nírætt en ber aldurinn vel.
„Foreldrar mínir voru bláfátækir og gátu því aldrei gerst búendur heldur voru þau í húsmennsku, eins og kallað var", segir Halldór. „Þegar faðir minn deyr var ég á þriðja ári og atvikin urðu þau að ég var tekinn í fóstur í Garpsdal, en móðir Haflínu var föðursystir mín."
Meðan Halldór var enn í bernsku fluttist hann með fósturforeldrum sínum að Ingunnarstöðum í Geiradal, þar sem þau bjuggu í nokkur ár, en árið 1927 fluttust þau aftur að Garpsdal þar sem Júlíus og Haflína bjuggu síðan liðlega fjóra áratugi. Allan þann tíma starfaði Halldór á búi fósturforeldra sinna, að undanskildum tveimur vetrum þegar hann var á Reykjaskóla í Hrútafirði. Þegar Júlíus og Haflína brugðu búi árið 1968 bauðst Halldóri starf hjá Kaupfélagi Króksfjarðar og fluttist í Króksfjarðarnes.
„Þar varð ég fyrir því happi að finna góða konu, Huldu Pálsdóttur frá Hafrafelli í Reykhólasveit. Við gengum í hjónaband og bjuggum saman meðan hún lifði. Ég vann hjá kaupfélaginu í 25 ár en síðan fluttum við í Hafnarfjörð, þar sem þrjú af börnum Huldu heitinnar voru búsett. Við áttum ekki börn saman en stjúpbörnin hafa reynst mér eins og hefðu þau verið mín eigin börn."
Halldór kveðst kunna afskaplega vel við sig í Hafnarfirði - „með Hamarinn fyrir ofan og hraun hérna fyrir neðan, en þetta eru aðalsmerki Hafnarfjarðar. Rétt hérna hjá búa eldri borgarar í tveimur blokkum sem heita Höfn - þar þykir fólkið vera komið í höfn - og þar borða ég hádegismat í mötuneytinu á hverjum virkum degi."
Halldór kveðst reyna að koma vestur á hverju ári, bæði á fornar slóðir í Geiradalshreppnum gamla og líka vestur að Ísafjarðardjúpi, en Sigríður Hafliðadóttir húsfreyja á Hvítanesi við Skötufjörð er stjúpdóttir hans. Einar Valgeir Hafliðason í Fremri-Gufudal er meðal annarra stjúpbarna hans.
Í Garpsdal hafa nú búið um langan aldur hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur og Hafliði Ólafsson, en hann er dóttursonur Haflínu og Júlíusar í Garpsdal.
Núverandi kirkja í Garpsdal var fullgerð árið 1935, byggð eftir alkunnri teikningu Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins. Hún var þegar raflýst og hituð með rafmagni, sem Júlíus bóndi lét í té frá heimarafstöð sinni.
(Myndirnar tók Óskar Steingrímsson).