Tenglar

19. maí 2012 |

Aldrei upplifað eins hlýjar móttökur

Frá heimsókn Vestra í Barmahlíð á Reykhólum. Myndir: Guðrún Erla.
Frá heimsókn Vestra í Barmahlíð á Reykhólum. Myndir: Guðrún Erla.
1 af 6

„Þetta var sérlega ánægjuleg ferð,“ segir Jónas Sigurðsson á Patreksfirði, formaður Karlakórsins Vestra, sem brá sér í heimsókn austur að Reykhólum í fyrradag, uppstigningardag, og hélt tónleika í íþróttahúsinu. Að þeim loknum kom kórinn við á Dvalarheimilinu Barmahlíð og söng fyrir mannskapinn og naut veitinga áður en heim var haldið á ný.

 

Systurnar og tónlistarkennararnir Mariola og Elzbieta Kowalczyk annast kórstjórn og undirleik hjá Vestra. Meðal söngmannanna er eiginmaður Elzbietu, Magnús Ólafs Hansson, sem kalla má upphafsmann kórsins. Magnús var margreyndur í kórastarfi á norðanverðum Vestfjörðum en fluttist á Patreksfjörð fyrir nokkrum árum. Meðal fyrstu verka hans þar var að gangast fyrir stofnun karlakórs í Vestur-Barðastrandarsýslu og var stofnfundur Vestra haldinn á Bjargtöngum 1. maí 2008. Nú er þegar farið að huga að tónleikum á Bjargtöngum á fimm ára afmæli kórsins á næsta vori.

 

„Já, ferðin var blátt áfram yndisleg,“ segir Magnús. „Ég hef um dagana farið víða með ýmsum kórum en aldrei upplifað eins hlýjar móttökur og á Reykhólum. Við bjuggumst nú ekki við því að fá marga áheyrendur á miðjum sauðburði og okkur var sagt áður en við lögðum af stað að kannski kæmu þrír til fimm. En það var ekki bara gaman að fá allt þetta fólk til að hlusta á okkur, það var miklu verðmætara að fá að njóta þess að hitta þetta góða fólk og finna alla vinsemdina og hlýjuna. Ég ætla ekki að nafngreina neinn nema Sollu Magg, sem bakaði þessi ósköp af fíniríi og bauð okkur í stórkostlegt veislukaffi og faðmaði okkur alla strákana sína að vestan, eins og hún kallaði okkur. Skilaðu innilegu þakklæti á Reykhóla og kærum kveðjum frá okkur,“ segir Magnús Ólafs Hansson.

 

Hér fylgja nokkrar myndir af heimsókn kórsins í Barmahlíð, sem Guðrún Erla hjúkrunarfræðingur tók. Fleiri er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Karlakórinn Vestri í valmyndinni vinstra megin. Kórfélagarnir eru auðþekktir á rauðu hálsbindunum og svörtu skyrtunum með merki kórsins.

 

Stjórn Karlakórsins Vestra skipa nú Jónas Sigurðsson á Patreksfirði, Helgi Hjálmtýsson á Bíldudal og Ólafur Gestur Rafnsson á Patreksfirði.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31