Aldursforsetar Reykhólahrepps
Í gær átti Jón Friðriksson á Gróustöðum 95 ára afmæli. Þrátt fyrir það er hann bara næst elstur í sveitinni.
Kristinn Bergsveinsson frá Gufudal er 4 mánuðum eldri, hann varð 95 ára 29. júní sl. Þegar hann var níræður var þessi grein tekin saman, en við hana er er í sjálfu sér ekki miklu að bæta, nema afkomendum hefur eitthvað fjölgað. Elli kerling hefur heldur náð yfirhöndinni upp á síðkastið, en til skamms tíma hafði hann í fullu tré við hana og vel það.
Jón á Gróustöðum ber aldurinn nokkuð vel, Gulla dótturdóttir hans lýsir því svona, -það verður ekkert gert betur- „afmælisbarn dagsins er afi, Jón Oddur Friðriksson, aðeins 95 ára ungur! Hann býr ennþá á Gróustöðum, eldar fyrir sig og sér að mestu um sig sjálfur, fyrir utan búðarferðir og einstaka þrif. Hann er ennþá sæmilega furðulegur, vitnar í og hermir eftir fólki sem var fætt snemma á síðustu öld (jafnvel seint á þarseinustu), og getur lýst því í smáatriðum hvernig ákveðnar vélar virka eða hvernig gömul hús voru byggð og litu út.“
Jón fæddist í Hólum 8. nóv. 1927, foreldrar hans voru Friðrik Magnússon og Daníelína Gróa Björnsdóttir. Jón er elstur fjögurra bræðra, hinir voru Haukur símstöðvarstjóri í Króksfjarðarnesi, Lárus vélstjóri í Þorlákshöfn og Sigmundur vélvirki í Grundarfirði.
Þegar Jón var á 9. ári missti hann föður sinn og þá fór fjölskyldan sitt í hverja áttina, Jón ólst upp í Munaðstungu og síðar í Garpsdal.
Jón kvæntist árið 1957 Þuríði Sumarliðadóttur á Gróustöðum og hófu þau þar sinn búskap, ásamt foreldrum Þuríðar til að byrja með, Sumarliða Guðmundssyni og Signýju Björnsdóttur. Þau eignuðust 3 börn, Friðrik Daníel, Signýju Magnfríði og Bjarka Stefán.
Jón vann aðallega við vélaviðgerðir og smíðar af ýmsu tagi til ársins 1974, þá tóku þau við búinu þegar Sumarliði lést. Jón og Þuríður stóðu fyrir búi í liðlega aldarfjórðung en þá tóku Stefán og Bára kona hans við.
Þegar búskapurinn hvíldi ekki lengur á herðum Jóns gafst betra tóm til að sinna smíðum og þvíumlíku, en Jón er afbrigðilega handlaginn og verkséður í betra lagi. Áhugamálin eru mörg en líklega hefur staðið upp úr einlægur vilji til að greiða úr vanda samferðafólksins og að finna hlutum og efni hlutverk, þó aðrir teldu að það væri búið að þjóna sínum tilgangi.
Fyrir 5 árum voru höggvin stór skörð í fjölskyldu Jóns, en þá létust Þuríður kona hans og Signý Magnfríður dóttir hans með um mánaðar millibili. Jón tók því með sama æðruleysinu og hefur einkennt hann ætíð.
Eins og áður segir eignuðust þau Jón og Þuríður 3 börn, barnabörnin eru 7 og barnabarnabörnin 6, það er heilmikið ríkidæmi.
Þegar menn eru orðnir þetta fullorðnir þá er ekki mikið partístand þó að renni upp afmælisdagur, það munar ekki svo mikið um einn í viðbót þegar þeir eru orðnir þetta margir. En Jóni þykir vænt um ef einhver rekst inn til hans og er til í kaffi og spjall.