Álft með gervihnattasendi í Djúpafirði
Þessi svanur heitir Rocky og hélt sig í Djúpafirði í Reykhólahreppi núna á páskadag. Hann er karlkyns eins og nafnið bendir til og borinn í heiminn árið 2005. Fyrst var hann merktur á verndarsvæðinu í Caerlaverock í Skotlandi í desember það ár og hélt norður á bóginn snemma í apríl um vorið. Ekki er vitað hvar hann hefur haldið sig á sumrin en hann hefur verið í Caerlaverock á hverjum vetri og sást á Norður-Írlandi 30. október í haust á leið þangað. Hinn 10. desember sl. var festur á hann gervihnattasendir og núna er hægt að fylgjast með ferðum hans á hverjum degi og nokkurra ættingja hans.
Rocky hefur haldið kyrru fyrir í Djúpafirði undanfarna daga eftir að hafa flogið nokkuð rakleiðis þangað. Að vísu var leiðin dálítið krókótt síðasta spölinn með viðkomu á Laugum í Sælingsdal og úti við Klofning áður en strikið var tekið norður yfir.
Sjá gervihnattakort frá því í dag á myndum nr. 2 og 3. Smellið á myndirnar til að stækka þær.