Allir skotnir ernir og fálkar finnast við Breiðafjörð
Væntanlega til að drepa fuglana
Kristinn Haukur segir að tölur um skotna erni og fálka hafi upphaflega birst á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar þar sem fjallað var um niðurstöðu krufninga á örnum og fálkum. Í ljós kom að um fjórðungur arna og fálka sem fundust dauðir hafði verið skotinn. „Í sumum er ef til vill aðeins eitt hagl eða brot úr byssukúlu og fuglarnir hafa ekki drepist af skotinu, heldur af öðrum ástæðum. Engu að síður hefur verið skotið á þá - og þá væntanlega til þess að drepa fuglana“, segir Kristinn Haukur.
Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar er fjallað um hvers vegna þessir alfriðuðu og sjaldgæfu fuglar eru skotnir. Fálkar eru m.a. eftirsóttir til uppstoppunar og eins hafa rjúpnaveiðimenn stundum skotið á þá enda geta þeir truflað rjúpnaveiðar. Ernir trufla æðarvarp og líklega eru það fyrst og fremst þeir sem er illa við erni af þeim sökum sem skjóta þá, að mati Náttúrufræðistofnunar. Auk þess er arnarvarp truflað af sömu aðilum og hreiður stundum eyðilögð. Kristinn Haukur segir að dregið hafi úr slíku undanfarin ár og tekur skýrt fram að langflestir æðarbændur virði friðhelgi arnarins, svo ekki sé hægt að fordæma heila stétt vegna þessa. Allir skotnu fuglarnir fundust við Breiðafjörð, en það er aðalbúsvæði arnarins.
Gróðavon hvati fálkadráps
„Það sem gerir eftirlit með lögunum erfitt er að menn geta verið með strangfriðaða fugla í vörslu sinni átölulaust eins og kom í ljós þegar maður einn „fann“ frystikistu með fjórum dauðum fálkum á Húsavík fyrir nokkrum árum. Þessu stendur til að breyta og er nefnd á vegum umhverfisráðherra að skoða vandlega fuglaverndunarlögin og fleira, meðal annars með þetta í huga“, segir Kristinn Haukur.
Í grein Kristins Hauks kemur fram, að af þeim örnum sem fundust dauðir og höfðu yfirgefið æskuóðalið var 21 krufinn og röntgenmyndaður. Fimm þeirra, það er 24 prósent, reyndust hafa verið skotnir og drápust tveir þeirra örugglega af þeim sökum. Samsvarandi hlutfall hjá fálkanum, að því er segir á síðu Náttúrufræðistofnunar, var heldur hærra því 18 af 68 fuglum, það er 26 prósent, reyndust vera með högl í skrokknum. Einn fálkanna var með 26 högl í sér og hafði greinilega drepist strax en í hinum var 1 til 4 högl. Líklega höfðu flestir komist lifandi frá skotmanninum en áverkarnir átt þátt í dauða þeirra síðar. „Uppsettir fálkar hafa leynt og ljóst gengið kaupum og sölum og má leiða líkur að því að gróðavon sé helsti hvati fálkadrápa“, segir enn fremur.
Ernir og fálkar á válista
Haförninn er mjög fáliðaður varpfugl hér á landi en talið er að um 65 varppör séu í stofninum. Fálkinn er sjaldgæfur varpfugl á Íslandi en varpstofninn er talinn vera 300 til 400 pör. Bæði ernir og fálkar eru fuglar á válista. Örninn hefur verið friðaður frá árinu 1914 en fálkinn frá 1940.
- Samantekt í nýjasta tölublaði Fréttatímans.